Eftirlit
Eitt af hlutverkum Seðlabanka Íslands er að veita eftirlitsskyldum aðilum uppbyggilegt og markvisst aðhald og styðja við mótun á skilvirkri og traustri fjármálastarfsemi, þar sem áhersla er lögð á faglegt innra skipulag fjármálafyrirtækja. Seðlabankinn rækir hlutverk sitt með því að fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og samþykktir sem um starfsemina gilda og sé að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.
Seðlabankinn starfar einnig á grundvelli alþjóðlegra grunnreglna um árangursríkt eftirlit á hverju sviði fjármálamarkaðar. Á alþjóðavettvangi er sífellt aukin áhersla lögð á að eftirlit með fjármálastarfsemi í einstökum löndum sé samræmt og skilvirkt. Með því er leitast við að stuðla að aukinni samkeppnishæfni fjármálamarkaða.
Meginákvæði um eftirlit Seðlabankans er að finna í III. kafla laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Auk þess er kveðið á um eftirlit og heimildir Seðlabankans í hinum ýmsu lögum, reglugerðum og reglum um starfsemi á fjármálamarkaði, sem finna má undir „Réttarheimildir“ hér á vefnum.