Skráning gjaldeyrisskiptastöðva

Gjaldeyrisskiptastöð er skilgreind sem starfsemi þar sem í atvinnuskyni fara fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris. Gjaldeyrisskiptastöðvar eru skráningarskyldar hjá Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 140/2018 , um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, að undanskildum þeim aðilum sem uppfylla skilyrði undanþágu, sjá umfjöllun neðar.

Í áhættumati ríkislögreglustjóra sem gefið var út í mars 2021 er áhættan af gjaldeyrisskiptum metin veruleg. Við mat á ógnum voru taldar vísbendingar um að nokkuð algengt væri að brotamenn notuðu gjaldeyrisskipti til að þvætta peninga.

Hlutfall reiðufjárviðskipta í gjaldeyrisskiptum er hátt en reiðufjárviðskipti bjóða upp á að uppruni fjármagns sé dulinn og að einhverju leyti nafnlaus viðskipti sem geta verið ítrekuð hjá sama viðskiptamanni.

Í áhættumati ríkislögreglustjóra kom jafnframt fram að vísbendingar séu um að viðskipti af þessu tagi eigi sér stað með skipulögðum hætti.

Hvað felst í því að veita gjaldeyrisskipti í atvinnuskyni?

Við mat á því hvað teljist starfsemi þar sem í atvinnuskyni fara fram kaup og sala innlends og erlends gjaldeyris ber að líta til þess að ekki er nauðsynlegt að gjaldeyrisskiptaþjónusta sé veitt sem aðalstarfsemi, heldur nægir að gjaldeyrisskipti séu hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðila og aðeins veitt viðskiptavinum hans.

Í skilgreiningu laga nr. 140/2018 á gjaldeyrisskiptastöð er ekki tilgreint að gjaldeyrisskipti þurfi að vera veitt gegn þóknun eða að umgjörð gjaldeyrisskiptastöðva þurfi að vera með ákveðnum hætti, að öðru leyti en því að þjónustan sé veitt í atvinnuskyni. Því er aðili ekki sjálfkrafa undanþeginn skráningarskyldu þó að hann innheimti ekki þóknun fyrir slíka þjónustu, viðkomandi hafi hagnað af gengismun eða að þjónustan sé auglýst sérstaklega.

Undanþága frá skráningu sem gjaldeyrisskiptastöð

Gjaldeyrisskiptastöðvar eru skráningarskyldar hjá Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 35. gr. laganna, að undanskildum þeim aðilum sem uppfylla öll skilyrði sem fram koma í i-lið 1. mgr. 2. gr., þ.e.:

  1. Að gjaldeyrisskiptin séu hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og sé aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
  2. að heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemi minna en 5 milljónum króna á ári, og
  3. að gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fari ekki yfir 100 þúsund krónur, hvort sem er í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.

Í athugasemdum við undanþáguákvæði í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2018 kemur fram að meginskilyrði þess að aðili teljist ekki tilkynningarskyldur aðili og þurfi þ.a.l. ekki að hljóta skráningu sem gjaldeyrisskiptastöð sé að umrædd gjaldeyrisviðskipti séu hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti aðalstarfsemi aðilans og sé aðeins veitt viðskiptamönnum hans.

Í dæmaskyni eru nefnd hótel, verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem fyrst og fremst bjóða upp á aðra starfsemi en gjaldeyrisskipti en veita þá þjónustu í tengslum við aðalstarfsemi sína, s.s. hótel sem býður gestum sínum upp á að skipta gjaldeyri gegn þóknun eða verslanir sem við sölu á vöru taka við greiðslu í erlendum gjaldmiðli en gefa til baka í íslenskum krónum. Hins vegar er tiltekið í frumvarpinu að t.d. megi gera ráð fyrir að upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, sem býður upp á gjaldeyrisskipti gegn þóknun fyrir hverja þá aðila sem óska eftir þjónustunni, uppfylli ekki skilyrði undanþágunnar og þurfi að sækja um skráningu sem gjaldeyrisskiptastöð.

Með hliðsjón af framangreindu ber aðilum sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu sem hliðarstarfsemi að búa yfir fullnægjandi kerfum til þess að sýna fram á að fjárhæðatakmörkunum 2. og 3. tölul. undanþáguákvæðisins sé mætt. Geti aðili ekki sýnt fram á að skilyrði undanþágunnar séu uppfyllt ber viðkomandi að sækja um skráningu skv. 1. mgr. 35. gr. laganna.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica