Einingar tengdar almannahagsmunum

Lánastofnanir, vátryggingafélög, lífeyrissjóðir og útgefendur verðbréfa, sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum markaði, eru í lögum um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019 og lögum um ársreikninga nr. 3/2006 skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum (e. public interest entities).[1]

Lögin undirstrika þjóðhagslegt mikilvægi slíkra eininga með því að gera auknar kröfur um áreiðanleika og óhæði endurskoðunar þeirra. Tilgangurinn er að tryggja gæði ársreikninga þeirra og annarra fjárhagsupplýsinga. Gerð er krafa um að sérstök eftirlitsnefnd, endurskoðunarnefnd, starfi hjá einingu tengdri almannahagsmunum. Stjórn ber ábyrgð á skipun endurskoðunarnefndar og skulu nefndarmenn vera óháðir endurskoðanda einingarinnar auk þess sem meirihluti nefndarmanna skal vera óháður einingunni. Endurskoðunarnefnd gegnir meðal annars því hlutverki að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, virkni og skipulagi innra eftirlits og endurskoðun ársreikninga. Jafnframt gerir endurskoðunarnefnd tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda og hefur eftirlit með störfum hans. Til að tryggja óhæði endurskoðunar hjá einingu tengdri almannahagsmunum er starfstíma endurskoðanda sett takmörk, gerðar eru auknar kröfur til gæðaeftirlits með störfum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis og er þeim jafnframt skylt að birta opinberlega skýrslu um gagnsæi þar sem fram koma upplýsingar um viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.

Endurskoðendur og endurskoðunarnefndir hjá einingum tengdum almannahagsmunum gegna þannig veigamiklu hlutverki við að staðreyna áreiðanleika fjárhagsupplýsinga. Slíkar upplýsingar eru mikilvægur þáttur í því að viðhalda heilbrigðum og eðlilegum fjármálamarkaði jafnframt því að efla trú fjárfesta, hluthafa og almennings á starfsemi eininganna og fjármálamarkaðnum. Áreiðanlegar fjárhagsupplýsingar styrkja auk þess eftirlit Seðlabankans með viðkomandi einingum.

Fundir með endurskoðendum


[1] Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki teljast lánastofnanir, sbr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Önnur fjármálafyrirtæki en lánastofnanir teljast einingar tengdar almannahagsmunum ef þau eru með verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði.

Til baka Prenta





Þetta vefsvæði byggir á Eplica