Áreiðanleikakönnun
Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum er grundvöllur áhættuflokkunar viðskiptamanna. Matið stýrir því hvers konar áreiðanleikakönnun eigi að framkvæma. Þegar áhættumat sýnir fram á litla áhættu er heimilt að beita einfaldaðri áreiðanleikakönnun. Sýni áhættumat hins vegar meiri áhættu ber að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun. Jafnframt ber að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun við tilteknar lögbundnar aðstæður. Tilkynningarskyldum aðilum er þó ávallt óheimilt að bjóða upp á nafnlaus viðskipti.
Framkvæmd áreiðanleikakönnunar
- Í fyrsta lagi þurfa viðskiptamenn, raunverulegir eigendur og þeir sem koma fram fyrir hönd viðskiptamanns gagnvart tilkynningarskyldum aðila að sýna fram á að þeir hafi til þess heimild og sanna á sér deili, einstaklingar með framvísun viðurkenndra persónuskilríkja og lögaðilar með upplýsingum úr opinberri skrá.
- Í öðru lagi þurfa tilkynningarskyldir aðilar sjálfir að afla upplýsinga um viðskiptamenn og raunverulega eigendur og aðila sem hafa sérstaka heimild til þess að koma fram fyrir hönd viðskiptamanns.
- Í þriðja lagi þurfa tilkynningarskyldir aðilar að kanna áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn og raunverulega eigendur. Í því felst að sannreyna deili á viðskiptamanni og raunverulegum eiganda þar sem það á við. Þetta á einnig við um aðila sem hafa sérstaka heimild til þess að koma fram fyrir hönd viðskiptamanns. Sannreyna skal deili á þessum aðilum á grundvelli áreiðanlegra og sjálfstæðra upplýsinga auk þess að leggja mat á upplýsingar um tilgang og eðli fyrirhugaðra viðskipta. Tilkynningarskyldur aðili skal meta með sjálfstæðum hætti hvort upplýsingar um hinn raunverulega eiganda séu réttar og fullnægjandi og að hann skilji eignarhald, starfsemi og stjórnskipulag þeirra viðskiptavina sem eru lögaðilar, fjárvörslusjóðir eða aðrir sambærilegir aðilar. Einnig skal meta hvort viðskipti fari fram í þágu þriðja aðila og sé svo, eða ástæða til að ætla það, ber að sannreyna hver sá þriðji aðili er. Þá ber aðilum að staðfesta, eftir því sem við á, uppruna þeirra fjármuna sem notaðir eru í viðskiptum og grípa til réttmætra ráðstafana til að staðreyna viðeigandi upplýsingar.
Hvenær skal framkvæma áreiðanleikakönnun?
Tilkynningarskyldir aðilar undir eftirliti Seðlabankans skulu framkvæma áreiðanleikakönnun við eftirfarandi aðstæður:
- við upphaf viðvarandi samningssambands,
- vegna einstakra viðskipta að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri,
- við millifærslu fjármuna, þegar um einstök viðskipti er að ræða, hvort sem um er að ræða færslu fjármuna innan lands eða yfir landamæri, að fjárhæð 1.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
- við viðskipti með vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 10.000 evrur eða meira miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni,
- þegar grunur leikur á um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, án tillits til hvers konar undanþága eða takmarkana,
- þegar vafi leikur á því að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann eða raunverulegan eiganda séu réttar eða nægilega áreiðanlegar.
Nánar er kveðið á um framkvæmd áreiðanleikakönnunar í III. kafla laga nr. 140/2018, reglugerð nr. 745/2019 um áreiðanleikakönnun og í viðmiðunarreglum evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar.