Samstarf

Seðlabanki Íslands hefur samstarf við innlenda aðila innan stjórnkerfisins varðandi varnir gegn peningaþvætti. Þá tekur bankinn virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Innlent samstarf

Seðlabankinn tekur virkan þátt í samstarfi við aðra aðila innan stjórnkerfisins. Meðal annars er Seðlabankinn meðlimur í stýrihópi um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem skipaður er af dómsmálaráðherra. Sjá nánar um stýrihópinn á vef stjórnarráðs. Þá hefur bankinn ítarlegra samstarf við tiltekna aðila, s.s. skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, Skattinn og utanríkisráðuneytið.

Gagnlegir tenglar

Erlent samstarf

Seðlabanki Íslands tekur virkan þátt í samstarfi á alþjóðlegum vettvangi, einkum hjá Financial Action Task Force (FATF) og Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (e. European Banking Authority – EBA).

FATF

FATF er alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Með örri heimsþróun í viðskiptum og fjármagnsflæði milli ríkja, hefur þörfin fyrir alþjóðlegt samstarf og samræmingu á þessu sviði aldrei verið meiri. Ísland gerðist aðili að FATF árið 1991 og með inngöngu skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og starfsreglur við tillögur stofnunarinnar. Starf og tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um peningaþvætti verið í samræmi við tilmælin.

FATF semur staðla fyrir aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá leggur hópurinn mat á aðgerðir ríkja til að innleiða þessa staðla og rannsakar og lærir að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Lög, reglur og starfsaðferðir hvers aðildarríkis FATF eru teknar út og ritaðar eru skýrslur um aðgerðir þeirra. Árið 2017 gerði stofnunin úttekt á eftirliti með peningaþvætti á Íslandi og var meginniðurstaða skýrslunnar sem gefin var út árið 2018 að því væri verulega ábótavant. Frá því að skýrslan kom út hefur verið unnið að úrbótum til að bregðast við niðurstöðu FATF. Á meðal þeirra aðgerða er innleiðing nýrrar löggjafar (í samræmi við fjórðu Evróputilskipun 2015/849/EB), breytt eftirlitshlutverk, aukin fræðsla og almenn vitundarvakning á þessum málaflokk.

EBA

Hinn 1. janúar 2020 var EBA Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni fengið nýtt hlutverk í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hlutverk þess felst einkum í eftirfarandi:

  • Samræma eftirlit með málaflokknum á fjármálamarkaði
  • Þróa stefnur og móta framkvæmd áhættumiðaðs eftirlits
  • Samræma aðgerðir tilkynningarskyldra aðila og stuðla að miðlun upplýsinga
  • Viðhafa afmarkað eftirlit með eftirlitsaðilum

Gagnlegir tenglar


Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica