Tryggingastærðfræðingar og aðilar með sambærilega þekkingu
Einstaklingar geta hlotið viðurkenningu frá Seðlabanka Íslands til að sinna verkefnum tryggingastærðfræðings tiltekinna líftryggingafélaga og til að sinna tryggingafræðilegum athugunum í starfsemi lífeyrissjóða.
Þannig skal líftryggingafélag sem fellur undir undanþáguákvæði skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 100/2016 , um vátryggingastarfsemi (m.ö.o. líftryggingafélag sem undanþegið er Solvency II tilskipuninni) tryggja sér þjónustu tryggingastærðfræðings, eða sérfræðings með sambærilega þekkingu, sem hefur á hendi nauðsynlega tryggingatæknilega útreikninga og athuganir fyrir félagið, sbr. 3. mgr. 48. gr. laganna. Má sá einn taka að sér slíkt starf fyrir þess háttar líftryggingafélag sem hlotið hefur viðurkenningu Seðlabankans, sbr. 6. mgr. sömu greinar.
Þá ber stjórn lífeyrissjóðs að láta árlega fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við 39. gr. laga nr. 129/1997 , um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 1. mgr. 24. gr. sömu laga. Skal tryggingafræðileg athugun framkvæmd af tryggingafræðingi eða sérfræðingi með sambærilega þekkingu, sem hlotið hafa viðurkenningu Seðlabankans til slíks starfs samkvæmt lögum nr. 100/2016, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 129/1997.
Óski aðili eftir viðurkenningu Seðlabankans til að taka að sér störf fyrir líftryggingafélög eða lífeyrissjóði skal aðili skila til Seðlabankans umsókn þess efnis.
Við mat á hvort veita ber aðilum viðurkenningu hefur Seðlabankinn til hliðsjónar námsskrár í tryggingafræði sbr. þær sem International Actuarial Association (IAA) eða Actuarial Association of Europe (AAE) gefa út. Þess utan er einnig litið til þess hvort aðili hafi starfsreynslu sem nýtist í starfi.
Eftirtaldir aðilar hafa hlotið viðurkenningu frá Seðlabankanum:
Nafn |
Dagsetning |
Benedikt Jóhannesson | 14.4.1992 |
Bjarni Guðmundsson | 17.1.1997 |
Helgi Bjarnason | 14.10.1997 |
Vigfús Ásgeirsson | 31.1.1998 |
Sigurður Freyr Jónatansson | 21.12.1998 |
Steinunn Guðjónsdóttir | 17.3.1999 |
Þórir Óskarsson | 5.1.2009 |
Helgi Þórsson | 2.4.2012 |
Jón Ævar Pálmason | 22.12.2020 |
Jóhanna Sigmundsdóttir | 5.7.2021 |