Vörsluaðilar lífeyrissparnaðar

Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eru tilgreindir þeir aðilar sem geta tekið við lífeyrissparnaði skv. II. kafla laganna og tekið við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögunum. Þeir aðilar eru viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki, líftryggingafélög og lífeyrissjóðir. Í 4., 5. og 6. mgr. sömu greinar er að finna heimild fyrir erlenda viðskiptabanka og sparisjóði, verðbréfafyrirtæki og líftryggingafélög til að gera slíkt hið sama.

Í 10. gr. laga nr. 129/1997 kemur fram að viðskiptabankar, sparisjóðir, líftryggingafélög, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir, sem óska eftir því að bjóða upp á samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað í samræmi við ákvæði laganna, skuli fyrir fram leita eftir staðfestingu ráðherra á því að reglur sem um tryggingaverndina gilda séu í samræmi við ákvæði laganna.

Á lista yfir eftirlitsskylda aðila er að finna tilgreiningu á þeim aðilum sem teljast eftirlitsskyldir skv. lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og bjóða upp á samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað. Til viðbótar við þá aðila hafa eftirtaldir aðilar, sem aflað hafa sér starfsleyfis í öðru aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu, hlotið staðfestingu skv. 10. gr. laga nr. 129/1997:

  • Allianz Lebensversicherung AG
  • Bayern-Versicherung Lebensversicherung AG
  • VPV Lebensversicherungs-AG

Sjóðfélagi lífeyrissjóðs nýtur valfrelsis þegar kemur að því að ákveða til hvaða aðila ráðstafa skuli iðgjaldi sem renna skal til viðbótartryggingaverndar eða til séreignar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 129/1997, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að hann geti ákveðið að ráðstafa því til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna hans.

Ef um tilgreinda séreign er að ræða þá er sjóðfélögum heimilt að ráðstafa henni til annars vörsluaðila en þess lífeyrissjóðs sem móttekur iðgjald vegna lífeyrisréttinda hans í sameign, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þá gildir hins vegar það skilyrði að sömu reglur gildi um útborgun tilgreindrar séreignar og gilda mundu í þeim lífeyrissjóði sem sjóðfélaginn greiðir sameignarhluta iðgjaldsins til. Þá ber viðtakanda að halda tilgreindri séreign frá annarri séreign sem myndast af iðgjaldsstofni til lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 2. gr. og þeim hluta séreignar sem myndast hefur á grundvelli viðbótarlífeyrissparnaðar.

Hér að neðan er listi yfir þá aðila sem bjóða upp á samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað og fjármálaeftirlitið er upplýst um að geri ráð fyrir móttöku á tilgreindri séreign:

  • Allianz Lebensversicherung AG
  • Almenni lífeyrissjóðurinn
  • Bayern-Versicherung Lebensversicherung AG
  • Birta lífeyrissjóður
  • Festa - lífeyrissjóður
  • Frjálsi lífeyrissjóðurinn
  • Gildi – lífeyrissjóður
  • Íslandsbanki hf.
  • Íslenski lífeyrissjóðurinn
  • Lífeyrissjóður Rangæinga
  • Lífeyrissjóður verzlunarmanna
  • Lífeyrissjóður Vestmannaeyja
  • Lífsverk lífeyrissjóður
  • Stapi lífeyrissjóður
  • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda
  • VPV Lebensversicherungs-AG

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica