Neytendur og COVID-19
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) hefur tekið saman gagnlegar upplýsingar fyrir neytendur fjármálaþjónustu vegna spurninga sem geta vaknað í þeim sérstöku aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19 faraldursins.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Lista yfir eftirlitsskylda aðila má finna á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins. Í þessu felst m.a. eftirlit með heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum, að aðilar starfi með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi og að upplýsingagjöf sé skýr og sanngjörn. Í þeirri stöðu sem upp er komin í dag vegna heimsfaraldurs COVID-19 fylgist Fjármálaeftirlitið afar vel með stöðu mála og þróun. Tilkynningar Seðlabanka Íslands vegna COVID-19 má finna hér.
Neytendur fjármálaþjónustu geta sent Fjármálaeftirlitinu ábendingar um starfshætti eftirlitsskyldra aðila með rafrænum hætti eða haft samband og pantað símtal við sérfræðing. Hægt er að lesa nánar um eftirlit og upplýsingaþjónustu Fjármálaeftirlitsins hér.
Aukin hætta á netglæpum
Fjármálaeftirlitið vekur athygli neytenda á aukinni hættu á netglæpum í ljósi þess að örar breytingar hafa átt sér stað við veitingu fjármálaþjónustu. Ástæða er til að vera á varðbergi vegna þessa. Telji neytendur sig hafa orðið fyrir fjársvikum er þeim bent á að hafa samband við lögreglu (cybercrime@lrh.is). Nýverið birti Fjármálaeftirlitið upplýsingaskjal fyrir neytendur með hollráðum við val á rafrænni bankaþjónustu, en leiðbeiningar sem þar er að finna má yfirfæra á hvers konar fjármálastarfsemi.
Snertilausar greiðslur
Neytendur eru hvattir til að nýta sér snertilausar greiðslulausnir í viðskiptum sínum þar sem því verður komið við, líkt og samhæfingarstöð almannavarna hefur hvatt til. Margir þjónustuveitendur hafa, í ljósi aðstæðna, gripið til þeirra ráðstafana að taka ekki á móti greiðslu í peningaseðlum og mynt til að tryggja viðeigandi sóttvarnir.
Af þessu tilefni vill Fjármálaeftirlitið taka fram að peningaseðlar og mynt sem Seðlabanki Íslands lætur gera og gefur út telst vera lögeyrir til allra greiðslna hér á landi. Hins vegar er ekkert sem bannar seljanda vöru og þjónustu að krefjast þess að greiðsla sé innt af hendi með tilteknum hætti, hvort sem sú krafa er að einungis sé greitt með reiðufé eða rafrænum hætti. Ef móttakandi greiðslu telur ríka ástæðu til að takmarka umferð peningaseðla og myntar vegna COVID-19, s.s. þar sem viðkomandi eða náinn aðstandandi er í áhættuhópi eða hann telur sig ekki geta tryggt viðeigandi sóttvarnir, telur Fjármálaeftirlitið heimilt að synja móttöku peningaseðla og myntar meðan hið ótrygga ástand varir. Rétt er að aðilar upplýsi viðskiptavini um slíkar ráðstafanir með skýrum og augljósum hætti.
Fasteignalán og neytendalán
Lánastofnanir hafa kynnt fjölmörg úrræði fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem lenda í greiðsluerfiðleikum tengdum atvinnumissi, tekjuskerðingu eða veikindum vegna COVID-19 faraldursins. Fjármálaeftirlitið hvetur lántaka til að hafa samband við lánardrottna sína og kynna sér úrræði sem eru í boði. Í flestum tilfellum ná þau bæði til fasteigna- og neytendalána. Sem dæmi um úrræði sem lánastofnanir hafa kynnt eru: frestun afborgana, lækkun afborgana, lenging lánstíma, endurfjármögnun lána, skammtíma lánveitingar, yfirdráttarlán og greiðsludreifing kreditkortalána.
Vert er að benda á að Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga um neytendalán nr. 33/2013 og laga nr. 118/2016 um fasteignalán. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Neytendastofu: http://www.neytendastofa.is.
Ferðatryggingar
Fjármálaeftirlitið vill benda neytendum á mikilvægi þess að kynna sér réttindi sín í tengslum við ferðalög og möguleg áhrif COVID-19 á þau. Algengt er að einstaklingar séu með ferðatryggingu sem tengist kreditkorti viðkomandi eða er hluti af heimilistryggingu. Þá er það þekkt að einstaklingar séu í raun með tvöfalda ferðatryggingu, bæði í gegnum kreditkort og heimilistryggingu. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að skoða skilmála trygginganna vel og sækja svo um bætur í aðra hvora trygginguna. Í tilvikum sem þessum er ekki hægt að sækja um fullar bætur í báðar tryggingarnar þar sem markmið vátrygginga er að vátryggður sé eins settur eftir tjón og fyrir en ekki að viðkomandi hagnist á tjóninu.
Ástæða þess að ferð er ekki farin getur skipt máli varðandi bætur. Sé flugi aflýst á neytandinn annað hvort rétt á að fá flugmiðann endurgreiddan hjá viðkomandi flugfélagi eða fá nýjan flugmiða í stað þess sem ekki nýttist. Nánar má fræðast um réttindi ferðafólks í þessum aðstæðum á vef samgöngustofu. Samgöngustofa hefur einnig sett upp sérstaka upplýsingasíðu vegna COVID-19 þar sem nálgast má helstu upplýsingar varðandi samgöngur og COVID-19. Þá hefur Neytendastofa sett fram upplýsingar um réttindi neytenda í pakkaferðum á vefsíðu sinni.
Í ljósi áhrifa COVID-19 á ferðafólk hafa öll íslensku vátryggingafélögin sett upp upplýsingasíður á vefsíðum sínum þar sem finna má nánari upplýsingar um réttindi tengd ferðatryggingum hjá viðkomandi vátryggingafélagi. Hafi neytandi spurningar tengdar málefninu er best að byrja á að kynna sér upplýsingasíðu þess vátryggingafélags sem viðkomandi er vátryggður hjá. Ferðamálastofa hefur einnig tekið saman mjög gagnlegar upplýsingar um réttindi ferðafólks á vefsíðu sinni.
Fjármálaeftirlitið bendir á að komi upp ágreiningur í tengslum við bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélaga er hægt að leita með ágreiningsefnið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Komi upp ágreiningur um önnur atriði tengd ferðatryggingu er mögulega hægt að leita með þann ágreining til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.
Úttekt séreignarsparnaðar
Heimilt er að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021, allt að 12.000.000 kr. óháð því hvort sú heildarfjárhæð er í vörslu hjá einum eða fleiri aðilum. Fjárhæðin skal greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum að frádreginni staðgreiðslu, á 15 mánaða tímabili frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Hámarksgreiðsla á mánuði er 800.000 kr., tekjuskattur reiknast á útgreiðslurnar, vörsluaðili stendur skil á staðgreiðslu skattsins og kemur hann því til frádráttar af útgreiðslunni. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 12.000.000 kr. er að ræða.
Útgreiðsla séreignarsparnaðar hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsnæðisbóta, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Skatturinn fer með eftirlit með útgreiðslu séreignarsparnaðar. Fjármálaeftirlitið bendir rétthöfum séreignasparnaðar á að hafa samband við sinn/sína vörsluaðila varðandi nánari upplýsingar.
Meðhöndlun kvartana
Samkvæmt reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja og reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga kemur m.a. fram að tryggja skuli að kvartanir og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu. Í því felst m.a. að kvörtun sé svarað skriflega, eða með sambærilegum hætti og hún barst, innan fjögurra vikna.
Fjármálafyrirtæki, greiðslustofnanir, rafeyrisfyrirtæki og vátryggingafélög eiga að hafa skriflega stefnu um meðhöndlun kvartana og birta upplýsingar um stefnuna og meðhöndlun kvartana á vefsíðum þeirra.
Úrskurðarnefndir
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki fjallar um ágreining viðskiptamanna við lánastofnanir (t.d. viðskiptabanka eða sparisjóði), verðbréfafyrirtæki eða dótturfyrirtæki þessara fjármálafyrirtækja. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga milli landa. Skilyrði fyrir því að nefndin taki mál til meðferðar er að fjármálafyrirtæki hafi hafnað kröfu viðskiptamanns eða að ekki hafi tekist að leysa málið með sátt innan fjögurra vikna frá því að viðskiptamaður lagði málið fyrir fjármálafyrirtæki.
Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum fjallar um ágreining um bótaskyldu, þar með talið sök og sakarskiptingu milli neytenda og vátryggingafélaga.
Áður en aðili getur leitað til nefndarinnar skal hann hafa lagt kröfur sínar fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag. Mál verður að hafa borist nefndinni innan árs frá því að aðili fékk skriflega tilkynningu vátryggingafélags um að kröfu hans væri hafnað. Bregðist vátryggingafélag ekki við skriflegri kröfu aðila innan þriggja vikna frá móttöku hennar er aðila heimilt að leita með málið beint til úrskurðarnefndar.
Umboðsmaður skuldara
Ef einstaklingar eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum vill Fjármálaeftirlitið vekja athygli á því að hægt er að leita til umboðsmanns skuldara en þar er hægt að fá endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast yfirsýn yfir fjármál sín og leita leiða til lausnar.
Meginmarkmið embættisins er að bæta stöðu einstaklinga sem eiga í greiðsluerfiðleikum og auðvelda þeim að koma greiðslubyrði og skuldastöðu í ásættanlegt horf. Nánari upplýsingar um embættið má finna hér.