Kostnaður vegna starfsleyfis eftirlitsskyldra aðila
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald, skal greiða fastagjald fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila og eru það eftirfarandi:
- Vegna viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja og vátryggingafélaga: 2.500.000 kr.
- Vegna verðbréfafyrirtækja, rekstrarfélaga verðbréfasjóða, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, kauphalla, verðbréfamiðstöðva, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja: 1.000.000 kr.
- Vegna annarra eftirlitsskyldra aðila: 300.000 kr.
Seðlabanki Íslands sendir út greiðsluseðil vegna ofannefndra gjalda við móttöku umsókna.
Fyrir útgáfu leyfisbréfs ber auk þess að greiða til ríkissjóðs tiltekið gjald sem tilgreint er í 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs samkvæmt eftirfarandi sundurliðun:
- Leyfisbréf fyrir viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, greiðslustofnanir, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, miðlæga mótaðila og verðbréfamiðstöðvar: 230.000 kr.
- Leyfisbréf fyrir vátryggingafélög og kauphallir og aðra skipulega markaði: 197.000 kr.
- Leyfisbréf fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða, rekstraraðila sérhæfðra sjóða, vátryggingamiðlara og innheimtuaðila: 115.000 kr.
- Leyfisbréf fyrir veitendur gagnaskýrsluþjónustu: 107.000 kr.
Gjald samkvæmt ofangreindu skal greitt fyrir útgáfu leyfis og ber að senda staðfestingu þess efnis til Seðlabankans.
Í 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald er kveðið á um að eftirlitsskyldir aðilar skuli greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem þar segir. Álagningarstofnar eftirlitsgjalds eru efnahags- og rekstrarliðir samkvæmt ársreikningi viðkomandi aðila fyrir næstliðið ár, þó ekki þeirra er greiða skulu fast gjald.