Aðgerðir gegn markaðssvikum

MAR (Market Abuse Regulation) er reglugerð Evrópuþingsins og -ráðins (ESB) og fjallar að meginstofni um aðgerðir gegn markaðssvikum og opinbera birtingu innherjaupplýsinga af hálfu útgefenda. Markaðssvik er hugtak sem nær yfir innherjasvik, ólögmæta miðlun innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun. Slík hegðun kemur í veg fyrir fullt og eðlilegt gagnsæi á markaði sem er meginforsenda jafnra samkeppnisskilyrða og viðskipta fjárfesta á samþættum fjármálamörkuðum. Opinber birting innherjaupplýsinga af hálfu útgefenda er nauðsynleg til að koma í veg fyrir innherjasvik og til að tryggja að fjárfestar séu ekki blekktir.

Lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum tóku gildi 1. september 2021. Með lögunum var reglugerð Evrópuþingsins og ráðins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR) veitt lagagildi á Íslandi. Sambærileg ákvæði sem byggðu á markaðssvikatilskipuninni (MAD) var áður að finna í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Seðlabanki Íslands tekur á móti fyrirspurnum vegna innleiðingar á MAR í gegnum netfangið: marreglugerd@sedlabanki.is

MAR

MAR gildir um alla fjármálagerninga sem viðskipti eru með á skipulegum markaði, markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulegu markaðstorgi og hvers konar hegðun og aðgerðir sem gætu haft áhrif á slíka fjármálagerninga án tillits til þess hvort hegðunin eða aðgerðirnar eiga sér stað á viðskiptavettvangi eða ekki. Hið sama á við um fjármálagerninga sem óskað hefur verið eftir að teknir séu til viðskipta á skipulegum markaði eða markaðstorgi fjármálagerninga.

Samkvæmt MAR eru innherjasvik, ólögmæt miðlun innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun óheimil og kveður reglugerðin á um lágmarksstjórnsýsluviðurlög sé farið gegn ákvæðum gerðarinnar hvað það varðar.

Auk MAR hefur ESB gefið út 16 undirgerðir þar sem ýmsir þættir MAR eru útfærðir. Þessar gerðir hafa verið teknar upp með reglum ráðherra eða reglum Seðlabanka Íslands.

Afleiddar gerðir

Yfirlit yfir afleiddar gerðir MAR er að finna á vefsíðu ESB,en um er að ræða reglugerðartæknistaðla (e. Regulatory Technical Standards), innleiðingartæknistaðla (e. Implementing Technical Standards) og framseldar gerðir Framkvæmdastjórnarinnar (e. delegated regulation).

Gagnlegir tenglar

 

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica