Sameiginlegt rafrænt skýrslusnið ESEF

Með tilkomu laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu var lögð sú skylda á útgefendur verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði að birta ársreikninga sína á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði (e. European Single Electronic Format eða ESEF). Skyldan nær fyrst til reikningsársins 2021 og voru því fyrstu skil á ESEF forminu árið 2022.

Með sameiginlega rafræna skýrslusniðinu verða gögnin tölvulæsileg og er þannig ætlað að:

  • Einfalda ársreikningsgerð útgefenda verðbréfa
  • Gera ársreikninga aðgengilegri
  •  Auðvelda greiningu og samanburð á ársreikningum

Ársreikningum á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði skal skilað inn í miðlægan gagnagrunn (e. official appointed mechanisms eða oam). Hér á landi rekur OMX Nordic Exchanges Group OY gagnagrunninn fyrir Seðlabanka Íslands. Gagnagrunninn má finna á vefslóðinni www.oam.is.

Áform erum um að tengja saman alla miðlæga gagnagrunna innan EES svæðisins þegar fram líða stundir og er upptaka sameiginlegs rafræns skýrslusniðs fyrir ársreikninga m.a. hluti af því verkefni.

Hvaða útgefendur?

Með útgefendum er átt við útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði með Ísland sem heimaríki, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/2021.

Í 3. gr. laga nr. 20/2021 er að finna undanþágur frá lögunum í heild og sérstaklega frá II. kafla laganna, en kaflinn fjallar m.a. um ársreikninga útgefenda verðbréfa og birtingu á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.

Lögin gilda ekki um hluti og hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu, annarra en lokaðra sjóða, sbr. 1. mgr. 3. gr. Hugtökin „hlutir og hlutdeildarskírteini“ og „sjóðir um sameiginlega fjárfestingu, aðrir en lokaðir“ eru skilgreind nánar í 4. gr. laganna.

Íslenska ríkið, sveitarfélög og alþjóðastofnanir eru einnig undanþegin frá skyldunni um að birta ársreikninga samkvæmt II. kafla laganna.

Að uppfylltum skilyrðum er útgefandi skuldabréfa undanþegin skilyrðum II. kafla, þau eru:

  • eingöngu skuldabréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, og
  • nafnverð eininga skuldabréfa útgefanda er a.m.k. 100.000 evrur í íslenskum krónum

Ef skuldabréf útgefanda voru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir gildistöku laga nr. 20/2021 hinn 1. maí 2021 og eru enn útistandandi er viðmiðið 50.000 evrur í íslenskum krónum. Útreikningurinn skal miðast við gengi þegar skuldabréfin voru tekin til viðskipta á skipulögðum verðbréfamarkaði.

Opinbert eftirlit

Seðlabanki Íslands fer almennt með eftirlit með framkvæmd laga nr. 20/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, sbr. 1. mgr. 38. gr. Ársreikningaskrá kannar hins vegar hvort upplýsingar samkvæmt II. kafla séu samdar í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.

Árshlutareikningar og ESEF

Vakin skal athygli á því að skyldan til að birta ársreikninga á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði á einvörðungu við ársreikninga. Með lögum nr. 55/2021 var orðalagi 10. gr. laga nr. 22/2021 um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu breytt og skyldan færð í 6. gr. laganna, en það ákvæði fjallar bara um ársreikninga. Orðalagið er núna í samræmi við orðalag gagnsæistilskipunar Evrópusambandsins nr. 2004/109 sem lögin byggja á.

Gagnlegar upplýsingar

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica