Niðurstöður athugunar á veð- og tryggingakerfi Íslandsbanka hf.
Fjármálaeftirlitið hóf athugun á veð- og tryggingakerfi Íslandsbanka hf. í febrúar 2015. Samkvæmt 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 (fftl.) skal fjármálafyrirtæki á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína, þ.á m. útlána- og mótaðilaáhættu. Séu tryggingar og veð ekki skráð rétt í kerfin kann það að hafa áhrif á tryggingastöðu bankans. Í 19. gr. fftl. er fjallað um góða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Samkvæmt 5. gr. reglna nr. 670/2013 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja er fjallað sérstaklega um viðskiptahætti í innri starfsemi, en þar kemur m.a. fram að fjármálafyrirtæki skal búa yfir öflugu innra eftirlitskerfi og setja innri reglur og/eða viðmið um lykilþætti starfseminnar með hliðsjón af eðli og umfangi hennar. Markmið athugunar Fjármálaeftirlitsins var að staðfesta virkni og skráningar í kerfin og að kanna verklag við skráningu í þau. Við framkvæmd athugunarinnar lagði Fjármálaeftirlitið mat á innri reglur og verkferla Íslandsbanka hf. Valin voru fjögur félög með mismunandi tryggingaflokka úr lánasafni bankans og skoðað með ítarlegum hætti hvernig veð og tryggingar vegna þeirra voru skráð í kerfi bankans.
Niðurstöður athugunarinnar lágu fyrir í október 2015. Athugunin leiddi í ljós að verðmæti véla og tækja sem eru á kaupleigu, var í mörgum tilfellum rangt skráð í tryggingakerfi bankans og verðmöt sem áttu að vera fallin úr gildi samkvæmt vinnuleiðbeiningum, voru í sumum tilfellum höfð til hliðsjónar við mat á verðmæti véla og tækja. Þá var ekki samræmi í þeim dagsetningum sem notaðar voru við skráningu á verðmæti véla og tækja á kaupleigu í tryggingakerfi bankans. Í sumum tilfellum var ekki hægt að ráða af kaupleigusamningum hvaða dagsetning var höfð til hliðsjónar við skráningu á verðmæti véla og tækja í tryggingakerfi. Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við að flutningur á gögnum frá einu lánakerfi yfir í verðmatskerfi hefur ekki verið útfærður og skrá þarf verðmöt sérstaklega inn í verðmatskerfið. Þá voru engar vinnuleiðbeiningar fyrir starfsmenn til staðar vegna mánaðarlegrar yfirferðar á skráningu verðmætis veðandlaga í tryggingakerfi.
Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemdir við að í úrtakinu komu í ljós tilvik þar sem að í tryggingarkerfi bankans var m.a. skráð röng vísitala við uppreikning fyrri veðrétta, nákvæma útreikninga á verðmæti veðandlaga skorti, veðréttur fyrri kröfuhafa var ekki uppreiknaður með tilliti til vísitölubreytinga, veðbókarvottorð var ekki skráð og ekki var hægt að sjá hvaða veð voru á undan Íslandsbanka í veðröð.
Fjármálaeftirlitið fór fram á að Íslandsbanki hf. gerði viðeigandi úrbætur í kjölfar athugunarinnar.
ISB - Gagnsæistilkynning