Fréttir


Aðvörun til almennings um sýndarfé (e. virtual currencies)

31.1.2018

Fjármálaeftirlitið varar almenning við þeirri miklu áhættu sem fylgir viðskiptum með sýndarfé. Verð á sýndarfé, eins og Bitcoin, hefur sveiflast gríðarlega undanfarið ár og hafa miklar lækkanir fylgt í kjölfarið á miklum hækkunum.

Áhættan við kaup á sýndarfé
Sýndarfé, og þá einkum Bitcoin, fylgir lögmálum spákaupmennsku og er mjög áhættusamt. Þeir sem kaupa sýndarfé eiga á hættu á að tapa stórum hluta fjárfestingar sinnar.

Meðal áhættuþátta sem fylgja sýndarfé eru:

  • Engin neytendavernd – Engar reglur gilda á markaði með sýndarfé. Þannig er sýndarfé ekki viðurkenndur lögeyrir eða gjaldmiðill samkvæmt íslenskum lögum. Þá fellur slíkur gjaldmiðill hvorki undir ákvæði laga um greiðsluþjónustu nr. 120/2011 né ákvæði laga um útgáfu og meðferð rafeyris nr. 17/2013. Þó að þetta sé meðal þess sem gerir markaðinn með sýndarfé spennandi hefur það jafnframt í för með sér að neytendur njóta ekki þeirrar verndar sem fjármálamarkaður og framangreind lög veita.
  • Bólumyndun – Markaður með sýndarfé sýnir skýr merki um bólumyndun þar sem verð er mjög sveiflukennt og ekki tengt undirliggjandi eignum.
  • Markaðir með sýndarfé Markaðir með sýndarfé þurfa ekki starfsleyfi, falla ekki undir lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og lúta ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Verðgagnsæi hefur verið ábótavant á þessum mörkuðum og sumir þeirra hafa lent í rekstrarvanda, sem t.d. hefur leitt til stöðvunar viðskipta. 
  • Enginn bakhjarl Sýndarfé er ekki stutt af undirliggjandi eignum né af Seðlabönkum.

Fjármálaeftirlitið varar neytendur við að fjárfesta í sýndarfé og hætta þannig fjármunum sem þeir mega ekki við því að tapa nema að mjög vel athuguðu máli.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica