Áhætta getur falist í viðskiptum með fjármálagerninga sem tengdir eru gjaldmiðlum
Að gefnu tilefni vill Fjármálaeftirlitið vara almenning jafnt og fjárfesta við þeirri áhættu sem getur falist í viðskiptum með fjármálagerninga sem tengdir eru gjaldmiðlum, en að undanförnu hefur borið á óhefðbundinni markaðssetningu á slíkum viðskiptum sem talist getur villandi. Eftirlitið vill jafnframt hvetja neytendur sem hafa í hyggju að fjárfesta í slíkum gerningum að leita sérfræðiráðgjafar hjá aðilum sem hafa starfsheimild til fjárfestingarráðgjafar til að tryggja hagsmuni sína sem best.
Erlend gjaldeyrisviðskipti eru ekki starfsleyfisskyld og því geta fyrirtæki boðið upp á slík viðskipti án leyfis frá Fjármálaeftirlitinu. Þeir sem vilja skipta við fyrirtæki með starfsleyfi geta gengið úr skugga um að þau hafi það með því að skoða lista Fjármálaeftirlitsins yfir eftirlitsskylda aðila á Íslandi. Einnig vill eftirlitið benda á skrár yfir eftirlitsaðila á EES-svæðinu:
Frekari upplýsingar um heimildir og takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum vegna viðskipta með fjármálagerninga sem tengdir eru erlendum gjaldmiðlum veitir gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands í síma 569-9600. Einnig er hægt að senda fyrirspurn á netfangið gjaldeyrismal@sedlabanki.is
Við ákvörðun um fjárfestingu er gott að hafa eftirfarandi til hliðsjónar:
- Fjárfesta ekki með fé nema að hafa efni á að tapa því
- Gera sér grein fyrir því hvernig áhætta fylgir hverri fjárfestingu
- Kanna hvort aðili sem skipta á við sé með starfsleyfi hér á landi
- Kanna lagaheimildir til erlendra fjárfestinga
Fjármálaeftirlitið bendir jafnframt á að ESMA, evrópska verðbréfaeftirlitsstofnunin, gaf út viðvörun til fjárfesta árið 2011 um viðskipti með fjármálagerninga sem tengjast gjaldeyri. Í viðvörun ESMA kemur m.a. fram að þegar notast er við rafrænan vettvang til að eiga viðskipti með gjaldeyristengda fjármálagerninga, ættu fjárfestar að sýna varkárni. Forrit sem bjóða upp á rafrænan vettvang geta verið sjálfvirk að hluta til og því getur fjárfestir átt á hættu að missa stjórn á viðskiptum sem getur endað með tapi fjármuna. Fram kemur að fjárfestar ættu að gæta varúðar ef krafist er greiðslukortaupplýsinga af þeim til að eiga viðskipti með gjaldeyristengda fjármálagerninga, þar sem skilmálar geti falið í sér heimild til að gjaldfæra greiðslukort án viðvörunar.