Fréttir


Ákvörðun um hækkun sveiflujöfnunarauka

15.5.2018

Fjármálaeftirlitið tók í dag ákvörðun um hækkun sveiflujöfnunarauka í samræmi við tilmæli fjármálastöðugleikaráðs frá 13. apríl 2018.

Megintilgangur sveiflujöfnunaraukans er að auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins við hugsanlegu tapi í kjölfar aukinnar sveiflutengdrar kerfisáhættu. Einnig kemur fram að losun aukans veiti fjármálafyrirtækjum svigrúm til að viðhalda sjálfbæru framboði útlána í fjármálaniðursveiflu. Sveiflujöfnunaraukinn tekur því breytingum samhliða þróun sveiflutengdrar kerfisáhættu.

Samfelldur skuldavöxtur heimila og fyrirtækja síðastliðið ár bendir til þess að sveiflutengd kerfisáhætta hafi aukist. Húsnæðisverð hefur vikið nokkuð frá undirliggjandi þáttum á sama tíma sem jafnframt bendir til aukinnar kerfisáhættu. Þar að auki hefur áhætta einnig aukist innan afmarkaðra geira sem ekki er unnt að bregðast við með sértækum aðgerðum að svo stöddu. Í tilmælum fjármálastöðugleikaráðs er sérstaklega bent á sterkan upptakt í fjármögnunarsveiflunni og samspil útlána vegna atvinnuhúsnæðis og fasteignaþróunarverkefna og hás verðs á þeim markaði. Einnig er bent á að eftirlitsaðilar eigi, í bili að minnsta kosti, erfitt með að meta þörf fyrir beitingu sértækra stjórntækja vegna húsnæðismarkaðar og áhrif af beitingu slíkra stjórntækja. Verði mögulegt að bregðast við fyrrgreindum áhættuþáttum með sértækum úrræðum á næstu misserum mun Fjármálaeftirlitið kanna hvort tilefni sé til að beita þeim og meta hvaða áhrif það hefur á gildi sveiflujöfnunarauka. Slík endurskoðun gæti átt sér stað fyrir gildistöku ákvörðunar um hækkun sveiflujöfnunarauka.

Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins felur í sér að sveiflujöfnunaraukinn hækkar úr 1,25% í 1,75% á innlendar áhættuskuldbindingar allra fjármálafyrirtækja, bæði hvers fyrir sig og á samstæðugrunni, nema þeirra sem eru undanskilin aukanum samkvæmt 4. mgr. 86. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, og mun hún taka gildi eftir 12 mánuði. Við útreikning eigin fjár sem viðhalda skal ber að líta til vegins meðaltals sveiflujöfnunarauka hér á landi og í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, í samræmi við hlutdeild áhættuskuldbindinga í hlutaðeigandi ríkjum, sbr. 3. mgr. 86. gr. d sömu laga.

Hér má finna nánari upplýsingar um eiginfjárauka.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica