Annar fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2017
Annar fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu
2017 var haldinn þriðjudaginn 20. júní í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Á heildina litið er áhætta í fjármálakerfinu
enn fremur lítil. Frá síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs hefur þó gætt
vaxandi áhættu á nokkrum sviðum líkt og vænst var. Viðnámsþróttur heimila og
fyrirtækja hefur í meginatriðum haldið áfram að aukast með batnandi
efnahagsaðstæðum. Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er einnig mikill, hvort
heldur horft er til eignagæða, eiginfjár- eða lausafjárstöðu. Merki eru um að
uppsveifla skulda sé hafin en útlánavöxtur telst þó enn vera hóflegur. Í
vaxandi mæli hafa bankarnir aflað fjármögnunar á erlendum mörkuðum og kjörin
fara batnandi. Erlend staða þjóðarbúsins er orðin jákvæð og áfram er verulegur
afgangur af utanríkisviðskiptum þrátt fyrir talsverða styrkingu krónunnar. Á
hinn bóginn gætir vaxandi spennu á húsnæðis- og vinnumarkaði.
Þróun sveiflutengdrar kerfisáhættu hefur verið
með svipuðu móti og búist var við á síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs. Með
hliðsjón af greiningu kerfisáhættunefndar beinir fjármálastöðugleikaráð þeim
tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum í
1,25%, sbr. tilmæli ráðsins frá 30. september 2016. Þess má vænta að
fjármálastöðugleikaráð leggi til að uppbyggingu sveiflujöfnunaraukans verði
haldið áfram í takt við uppsöfnun ójafnvægis í fjármálakerfinu.
Næsti fundur fjármálastöðugleikaráðs verður 6.
október 2017.
Tilmæli
um sveiflujöfnunarauka