Danska vátryggingafélagið Alpha Insurance A/S hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta
Þann 8. maí síðastliðinn upplýsti danska fjármálaeftirlitið, Finanstilsynet, að danska vátryggingafélagið Alpha Insurance A/S hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá danska fjármálaeftirlitinu að þeir vátryggingartakar sem eru með lögboðnar vátryggingar skulu kaupa nýjar vátryggingar hjá öðru vátryggingafélagi eins fljótt og hægt er til að viðhalda vátryggingavernd. Danski ábyrgðarsjóðurinn, Danish Guarantee Fund, mun bæta tjón sem hafa orðið fyrir gjaldþrotið og allt að fjórum vikum eftir að skiptastjóri hefur tilkynnt vátryggingartökum um gjaldþrot félagsins, eða til 5. júní næstkomandi.
Tilkynna skal tjón til danska ábyrgðarsjóðsins, að því tilskyldu að tjónið sé bótaskylt hjá honum. Ef svo er ekki, er hægt að senda kröfu til þrotabús Alpha Insurance A/S.
Hægt er að sjá fréttatilkynningu danska fjármálaeftirlitsins hér: https://www.finanstilsynet.dk/en/Nyheder-og-Presse/Pressemeddelelser/2018/Alpha-insurance-080518