Fréttir


EBA birtir niðurstöður álagsprófs á banka innan Evrópusambandsins

26.10.2014

Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (EBA) hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem lýst er niðurstöðum á könnun á eignagæðum (e. Asset Quality Review) og álagsprófs (e. Stress Test) sem unnið var að á vegum Evrópska seðlabankans (ECB) og EBA. Markmið álagsprófsins er að meta viðnámsþrótt banka innan Evrópusambandsins.

Fjármálaeftirlitið hefur sem kunnugt er áheyrnaraðild að EBA og hefur fylgst náið með undirbúningi álagsprófsins. Hvorki Fjármálaeftirlitið né íslenskir bankar tóku þátt í prófinu. Ástæðan er sú að þegar hafa verið framkvæmdar ítarlegar útlánaskoðanir hér á landi í kjölfar fjármálakreppunnar haustið 2008 og álagspróf fyrir íslenska banka taka mið af annars konar aðstæðum en hið samevrópska álagspróf gerir ráð fyrir.

Ekki eru fyrirliggjandi fyllilega sambærilegar upplýsingar varðandi íslenska banka, en þeir virðast þó koma vel út í samanburði við banka innan Evrópusambandsins. Má þar nefna að eiginfjárhlutfall stóru viðskiptabankanna þriggja á Íslandi hefur farið hækkandi undanfarin misseri. Í árslok 2013 var vegið eiginfjárhlutfallið 26,2% og 27,2% í lok annars ársfjórðungs 2014. Eiginfjárhlutfall banka innan Evrópusambandsins, sem byggir á úrtaki EBA á 55 bönkum, sýnir að vegið eiginfjárhlutfall var 14,4% í árslok 2012 og 15,7% í árslok 2013. Þá hefur vanskilahlutfall íslensku bankanna farið lækkandi. Samkvæmt útlánaaðferð (e. facility) var vegið meðaltal vanskilahlutfallsins í árslok 2013 4,5% og 3,2% m.v. lok annars ársfjórðungs 2014. Vanskilahlutfall innan Evrópusambandsins, byggt á áðurnefndu úrtaki, sýnir að vegið meðaltal vanskilahlutfallsins var 6,5% í árslok 2012 og 6,8% í árslok 2013 og hefur farið hækkandi undanfarin misseri.

Á myndbandi á heimasíðu EBA er álagsprófið skýrt á aðgengilegan hátt.

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica