EBA gefur út leiðbeinandi tilmæli um könnunar- og matsferli eftirlitsstofnana
EBA, Evrópska eftirlitsstofnunin á bankamarkaði, hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli um könnunar- og matsferlið (e. SREP), en það er viðvarandi ferli varðandi alla eftirlitsþætti sem snúa að eftirlitsskyldum aðila og er ætlað að gefa heildarmynd af honum.
Tilmælin, sem EBA ber að gefa út skv. 3. mgr. 107. gr. tilskipunar 2013/36/ESB, svokölluð CRD IV tilskipun, beinast að lögbærum yfirvöldum (e. competent authorities) og er markmið þeirra að stuðla að samræmdri framkvæmd og aðferðafræði könnunar- og matsferlis, sbr. 97. gr. í tilskipun 2013/36/ESB um mat á eftirlitsskyldum aðila og þeim áhættum sem hann stendur frammi fyrir, sbr. 76 til 87. gr. í sömu tilskipun.
Tilmælin munu verða nýtt við eftirlit á bankamarkaði innan Evrópusambandsins. Á Íslandi munu þau taka til viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana og hluta rekstrarfélaga verðbréfasjóða.
Í tilmælunum eru settir fram þeir meginþættir sem könnunar- og matsferlið byggir á og eru þeir eftirfarandi: (1) greining á viðskiptalíkani, (2) mat á stjórnarháttum og innra eftirliti, (3) mat á áhættuþáttum sem hafa áhrif á eigið fé og eiginfjárþörf og (4) mat á áhættuþáttum sem hafa áhrif á laust fé og fjármögnun og lausafjárþörf. Mat á framangreindum meginþáttum er undirstaða heildarmyndar af viðkomandi eftirlitsskyldum aðila og á því byggjast samskipti við viðkomandi eftirlitsskyldan aðila og mögulegar eftirlitsaðgerðir.
Tilmælin munu leysa af hólmi eldri tilmæli sem gefin voru út árið 2006 af CEBS. Tilmælin munu taka gildi 1. janúar 2016 innan Evrópusambandsins og er fyrirhugað að þau taki gildi á árinu 2016 á Íslandi. Nánari umfjöllun um könnunar- og matsferlið má sjá í nýlegri grein í vefriti Fjármálaeftirlitsins.