EIOPA gefur út drög að framkvæmdatæknistöðlum og leiðbeinandi tilmælum vegna Solvency II til umsagnar
Evrópska eftirlitsstofnunin á vátrygginga- og lífeyrismarkaði (EIOPA) birti 3. desember sl. drög að framkvæmdatæknistöðlum (e. Implementing Technical Standards) og leiðbeinandi tilmælum (e. Guidelines) vegna innleiðingar Solvency II tilskipunarinnar (2009/138/EB). EIOPA var komið á fót með reglugerð ESB nr. 1094/2010/EB og skv. 16. gr. þeirrar reglugerðar hefur EIOPA heimild til að setja leiðbeinandi tilmæli til að auka samræmingu í regluverki og eftirliti innan ESB. Tilmælin útskýra betur eftirlitsframkvæmd og kröfur í Solvency II og því telur Fjármálaeftirlitið það til hagsbóta fyrir alla aðila á markaðnum að farið sé að þeim.
Um er að ræða seinni hluta framkvæmdatæknistaðla og leiðbeinandi tilmæla sem fara í umsagnarferli, en fyrri hlutinn fór í umsagnarferli 2. júní sl. sem lauk 29. ágúst sl. Hér verður gerð stuttlega grein fyrir efni staðlanna og tilmælanna en þeim má skipta í eftirfarandi flokka:
- Stoð 1 (Mat á eignum og skuldbindingum og gjaldþolskröfur)
- Stoð 2 (Viðbótargjaldþolskröfur, gagnsæi eftirlitsaðila o.fl.)
- Stoð 3 (Gagnaskil og opinber upplýsingagjöf)
Staðlana og tilmælin má sjá hér. Umsagnarfrestur er til 2. mars 2015.
Solvency II framkvæmdatæknistaðlar:
Stoð 1:
Skuldabréf og aðrar áhættuskuldbindingar gagnvart héraðs- og sveitarstjórnum er að ákveðnum skilyrðum hægt að meðhöndla eins og áhættuskuldbindingar gagnvart ríkisstjórnum í útreikningi gjaldþolskröfu vegna vikáhættu (e. spread risk), samþjöppunaráhættu (e. concentration risk) og mótaðilaáhættu (e. counterparty default risk). Ekki er gert ráð fyrir að neinn aðili hér á landi uppfylli þau skilyrði.
Við útreikning gjaldþolskröfu vegna hlutabréfaáhættu (e. equity risk) er gert ráð fyrir að krafan sveiflist með svonefndri samhverfri aðlögun (e. symmetric equity dampener). Hlutverk aðlögunarinnar er að leggja mat á í hvaða stöðu hlutabréfamarkaðurinn er. Ef markaðurinn er í niðursveiflu verður gjaldþolskrafan vegna áhættunnar lægri og öfugt í uppsveiflu. Þessi drög fjalla um á hverju EIOPA muni byggja þá vísitölu sem notuð verður til að reikna út aðlögunina.
Aðlögun fyrir gjaldmiðla sem fylgja evru (CP-14-059 ITS on adjustment for pegged currencies)
Fjallar um sérstaka meðhöndlun þeirra gjaldmiðla sem fylgja evrunni við útreikning gjaldþolsstöðu vegna gjaldmiðlaáhættu (e. currency risk). Í dag er um að ræða m.a. gjaldmiðla Búlgaríu (BGN) og Danmerkur (DKK).
Fjallar um hvernig reikna eigi gjaldþolskröfu vegna heilsutryggingaáhættu (e. health underwriting risk) þegar til staðar er jöfnunarkerfi sem jafnar áhættu á milli vátryggingafélaga. Í dag er slíkt kerfi einungis til í Hollandi.
Fjallar um aðlögun að 304. gr. tilskipunarinnar sem verður ekki innleidd hér á landi. Þessi tæknistaðall á því ekki við um Ísland.
Stoð 2:
Eftirlitsstjórnvöld skulu birta ákveðnar upplýsingar á heimasíðu sinni. Þessum staðli er ætlað að skilgreina hvaða gögn skal birta og ákvarða sniðmát. Markmiðið er að tryggja að gögn sem eftirlitsstjórnvöld birta opinberlega séu sambærileg milli ríkja EES.
Viðbótargjaldþolskrafa (CP-14-053 ITS on capital add-on)
Við ákveðnar aðstæður getur eftirlitsstjórnvald lagt viðbótargjaldþolskröfu á vátryggingafélag. Þessum staðli er ætlað að skilgreina ferlið sem eftirlitsstjórnvöld eiga að fylgja við mat á því hvort leggja skuli viðbótargjaldþolskröfu á vátryggingafélag.
Hluti af áhættustýringu vátryggingafélaga er að reiða sig ekki of mikið á lánshæfismat frá þriðja aðila. Tilgangur staðalsins er að skilgreina ferlið sem vátryggingafélög eiga að fylgja þegar mat er lagt á lánshæfismat frá þriðja aðila.
Stoð 3:
Regluleg gagnaskil til eftirlitsstjórnvalda ( CP-14-052 ITS on regular supervisory reporting )
Drög að tæknistaðli um reglubundin gagnaskil vátryggingafélaga til eftirlitsstjórnvalda. Hér má sjá tillögu að heildargagnaskilum eins og þau verða eftir gildistöku Solvency II.
Tilgangurinn er að skilgreina ferlið, framsetningu og sniðmát fyrir opinbera birtingu á skýrslu um gjaldþol og fjárhagsstöðu vátryggingafélags. Skýrsluna skal birta reglulega ásamt því að uppfæra skal skýrsluna við atburði sem geta haft marktæk áhrif á þær upplýsingar sem hafa áður verið birtar.
Leiðbeinandi tilmæli:
Stoð 1:
Tilmælin veita frekari leiðbeiningar um hvernig beita skuli alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) til að tryggja að mat á eignum og skuldbindingum, öðrum en vátryggingaskuld, sé í samræmi við markaðssjónarmið.
Tilgangur tilmælanna er að tryggja að samleitni sé náð við beitingu á ákvæðum vegna langtímaskuldbindinga og viðeigandi aðlögunarákvæða.
Stoð 2:
Framlenging á endurreisnartímabili (CP-14-046 Guidelines on extension of the recovery period)
Undir ákveðnum kringumstæðum getur eftirlitsstjórnvald veitt vátryggingafélagi sérstaka framlengingu á því tímabili sem félagið hefur til að reisa við fjárhag sinn eftir að farið er undir lögbundnar gjaldþolskröfur. Tilgangur tilmælanna er að þeirri heimild sé beitt á sambærilegan hátt hjá evrópskum eftirlitsstjórnvöldum.
Stoð 3:
Eftirlitsstjórnvöld hafa heimild til þess að veita vátryggingafélögum undanþágu frá tilteknum gagnaskilum að teknu tilliti til markaðshlutdeildar. Tilmælin skilgreina hvernig á að reikna markaðshlutdeild vátryggingafélaga í líf- og skaðatryggingum til þess að meta hvort tilefni sé til þess að veita undanþágu frá gagnaskilum.
Gagnaskil vegna fjármálastöðugleika (CP-14-045 Guidelines on financial stability reporting)
Tilgangur reglubundinna gagnaskila vátryggingafélaga (sbr. drög að tæknistaðli) er einkum að gefa eftirlitsstjórnvöldum upplýsingar um fjárhagslega stöðu vátryggingafélaga og samstæðna þeirra. Til viðbótar munu tiltekin vátryggingafélög þurfa að skila sérstökum upplýsingum vegna fjármálastöðugleika sem EIOPA og evrópska kerfisáhætturáðið (ESRB) munu nýta til að hafa yfirsýn yfir fjármálastöðugleika á EES.
Gagnaskil og opinber birting upplýsinga (CP-14-047 Guidelines on reporting and disclosure)
Tilmælin innihalda m.a. lýsingu á því hvaða atriði vátryggingafélög ættu að fjalla um í reglulegri eftirlitsskýrslu (RFR) og skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu (SFCR).
Miðlun upplýsinga innan eftirlitsráða (CP-14-050 Guidelines on exchange of information on a systematic basis within colleges)
Eftirlitsstjórnvöld sem hafa eftirlit með vátryggingasamstæðum sem starfa yfir landamæri mynda sk. eftirlitsráð. Tilmælin styðja við skilvirka miðlun upplýsinga og gagna innan slíkra ráða til að tryggja skilning á áhættum samstæðunnar.
Útibú ríkis utan EES (CP-14-048 Guidelines on third country branches)
Tilmælin eiga að tryggja að eftirlit með útibúum vátryggingafélaga með starfsleyfi frá ríki utan EES sé fullnægjandi til þess að tryggja hagsmuni vátryggingataka.