Fjármálaeftirlitið gefur út drög að reglum vegna tæknistaðla CRD IV/CRR
Fjármálaeftirlitið hefur gefið út sex
umræðuskjöl, nr. 3 – 8/2016. Umræðuskjölin innihalda drög að reglum til að
innleiða tæknilega staðla sem fylgja CRD IV löggjöfinni. Skjölin eru birt á
vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, http://www.fme.is/log-og-tilmaeli/umraeduskjol/.
Regludrögin útfæra ýmis tæknileg
atriði sem snúa að eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja, eiginfjáraukum,
útlánaáhættu og stórum áhættuskuldbindingum, sbr. umræðuskjöl nr. 3, 4, 7 og
8/2016. Í umræðuskjali 5/2016 eru drög að reglum um gagnaskil
fjármálafyrirtækja meðal annars vegna eiginfjárkrafna, stórra
áhættuskuldbindinga og vogunarhlutfalls. Í umræðuskjali nr. 6/2016 eru drög að
reglum sem útfæra nánar tæknileg ákvæði að því er varðar upplýsingaskyldu
fjármálafyrirtækja.
Fjármálaeftirlitið tekur sérstaklega
fram að samþykkt reglnanna er háð því að frumvarp um breytingar á lögum um
fjármálafyrirtæki, sem liggur fyrir á Alþingi, sbr. 589. mál, verði samþykkt. Endanlegar
reglur verða því settar eftir að frumvarpið er orðið að lögum. Frumvarpið er
eitt af forgangsmálum núverandi ríkisstjórnar. Samþykkt reglnanna er einnig háð
því að fjármála- og efnahagsráðuneyti hafi sett reglugerð um varfærniskröfur
vegna starfsemi fjármálafyrirtækja á grundvelli 117. gr. a laga um
fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Drög að slíkri reglugerð eru tilbúin, en
samþykkt reglugerðarinnar er einnig háð framgangi fyrrnefnds frumvarps.
Fjármálaeftirlitið mun gefa
fjármálafyrirtækjum kost á að gera athugasemdir við drögin. Frestur til að
senda inn umsagnir vegna regludraganna er til 31. ágúst nk. Umsögnum skal skila
á þar til gerð umsagnareyðublöð sem finna má á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins.