Fjármálaeftirlitið gefur út leiðbeinandi tilmæli um innri stjórnarhætti
Fjármálaeftirlitið
hefur gefið út leiðbeinandi
tilmæli nr. 1/2016 um innri stjórnarhætti fjármálafyrirtækja. Tilmælunum er
ætlað að samræma viðmið og vinnubrögð fjármálafyrirtækja með tilliti til
stjórnarhátta. Í þeim er að finna heildstætt yfirlit yfir þær kröfur sem
Fjármálaeftirlitið gerir til innri stjórnarhátta fjármálafyrirtækja. Jafnframt
veita tilmælin yfirsýn yfir brýnustu verkefni stjórnar, sem Fjármálaeftirlitið
leggur áherslu á að sé sinnt af kostgæfni. Tilmælin eiga erindi við
stjórnarmenn fjármálafyrirtækja og stjórnendur sem koma að daglegum rekstri
þeirra.
Samkvæmt 54. gr. laga um
fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ber stjórn fjármálafyrirtækis ábyrgð á
starfsemi og stefnumótun þess, svo sem áhættustefnu og að til staðar sé virkt
kerfi innra eftirlits sem samræmist ákvæðum laga. Stjórn ber ábyrgð á að
fullnægjandi eftirlit sé viðhaft með bókhaldi og að meðferð fjármuna félagsins
sé í samræmi við lög og reglur. Stjórnin ber jafnframt ábyrgð á að
stjórnarhættir og innra skipulag stuðli að skilvirkri og varfærinni stjórn
fyrirtækisins, aðskilnaði starfa og að komið sé í veg fyrir hagsmunaárekstra.
Leiðbeinandi tilmælum um innri stjórnarhætti fjármálafyrirtækja er ætlað að
skýra nánar og útfæra þær skyldur sem kveðið er á um í fyrrnefndri 54. gr.
laganna og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fullnægja þeim skyldum.
Leiðbeinandi
tilmæli nr. 1/2016 um innri stjórnarhætti fjármálafyrirtækja byggja á
viðmiðunarreglum frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (EBA), EBA
Guidelines on Internal Governance (GL44).