Fjármálaeftirlitið hefur lokið könnunar- og matsferli hjá Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankanum hf.
Fjármálafyrirtæki skal búa yfir tryggu eftirlitskerfi með áhættuþáttum í starfsemi sinni og meðhöndla þá með viðunandi hætti. Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu reglulega leggja mat á eiginfjárþörf fyrirtækisins með hliðsjón af áhættustigi þess, sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Matið fer fram í innramatsferli (e. Internal Capital Adequacy Assessment Process, lCAAP) og skal fjármálafyrirtæki gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir matinu þegar eftir því er óskað í svonefndri ICAAP-skýrslu.
Fjármálaeftirlitið leggur mat á þá áhættuþætti sem felast í starfsemi fjármálafyrirtækis í könnunar- og matsferli (e. Supervisory Review and Evaluation Process, SREP). Í ferlinu leggur Fjármálaeftirlitið einnig mat á það með hvaða hætti fjármálafyrirtæki meðhöndla áhættuþætti í starfseminni. Til grundvallar matinu liggja upplýsingar sem fram koma í reglubundnum gagnaskilum fjármálafyrirtækisins, einkum ICAAP-skýrslu, ársreikningi og skýrslu innri endurskoðunar. Þá aflar Fjármálaeftirlitið upplýsinga á fundum með fulltrúum fjármálafyrirtækisins, með sértækum athugunum og öðrum samskiptum á meðan á ferlinu stendur.
Könnunar- og matsferlið leiðir til niðurstöðu um það að hve miklu leyti þær ráðstafanir sem hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki hefur gripið til séu nægjanlegar, hvort stjórnun þess sé traust og hvort eiginfjárgrunnur sé fullnægjandi með hliðsjón af þeim áhættuþáttum sem felast í starfseminni. Í ferlinu er meðal annars lagt mat á viðskiptaáætlun, stjórnarhætti, útlána- og samþjöppunaráhættu, markaðsáhættu, rekstraráhættu, lausafjár- og fjármögnunaráhættu og álagspróf. Við mat á þessum áhættuþáttum styðst Fjármálaeftirlitið við Almenn viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum sem byggja á viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um sama efni. Í ferlinu hefur Fjármálaeftirlitið meðal annars heimild til að mæla fyrir um hærri eiginfjárgrunn af áhættugrunni en sem nemur hinu 8% lögbundna lágmarki, endurbætur á innri ferlum, niðurfærslu á eignum við útreikning á eiginfjárgrunni, hömlur eða takmörkun á starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis og að dregið sé úr áhættum sem starfsemi þess felur í sér. Þá getur Fjármálaeftirlitið komið ýmsum athugasemdum og ábendingum á framfæri í ferlinu.
Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. skiluðu Fjármálaeftirlitinu ICAAP-skýrslum, miðað við ársreikning 2015, í mars og apríl 2016. Fjármálaeftirlitið sendi bönkunum drög að niðurstöðum könnunar- og matsferlisins í júlí 2016 þar sem bankarnir fengu tækifæri til að koma á framfæri andmælum, sbr. IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Andmæli bankanna þriggja bárust í ágúst og september 2016. Fjármálaeftirlitið hefur nú lokið könnunar- og matsferlinu hjá bönkunum þremur og sendi þeim skýrslur um niðurstöður í byrjun október 2016.
Í ferlinu var meðal annars lagt mat á viðskiptaáætlanir bankanna með áherslu á þætti sem gætu talist ógn við lífvænleika viðskiptalíkana og sjálfbærni viðskiptastefnu þeirra. Við mat á stjórnarháttum var lögð áhersla á fyrirtækja- og áhættumenningu bankanna. Þá var við mat á útlána- og samþjöppunaráhættu meðal annars skoðað hugsanlegt vanmat staðalaðferðar, lántaka- og geirasamþjöppun og samþjöppun í vöruframboði og tryggingum auk þess sem lögð var áhersla á virkni lánagreiningar og útlánaeftirlits hjá bönkunum. Við mat á markaðsáhættu voru vaxtaáhætta og hlutabréfaáhætta í veltubók og fjárfestingabók skoðaðar, auk gjaldeyrisáhættu og verðtryggingaráhættu. Jafnframt var lagt mat á rekstraráhættu, þ.m.t. laga- og stjórnmálaáhættu, og lausafjár- og fjármögnunaráhættu með sérstaka áherslu á viðbúnaðaráætlanir. Auk þess voru umgjörð álagsprófa og áhrif fyrirhugaðrar hækkunar á samanlagðri kröfu um eiginfjárauka skoðuð.
Helsta niðurstaða ferlisins var að mælt var fyrir um hærri eiginfjárgrunn en sem nemur 8% af áhættugrunni hjá bönkunum þremur. Ákvörðunin er grundvöllur nýrrar lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn sem hlutaðeigandi bönkum ber að fullnægja auk þess sem þeim ber að viðhalda samanlagðri kröfu um eiginfjárauka. Þá beindi Fjármálaeftirlitið ýmsum athugasemdum og ábendingum til bankanna og fór fram á viðeigandi úrbætur í þeim tilvikum þegar gerðar voru athugasemdir.
Fjármálaeftirlitið birtir ekki upplýsingar um lágmarkskröfu stofnunarinnar um eiginfjárgrunn bankanna en bankarnir ákveða sjálfir hvort þeir birta kröfuna opinberlega.