Fréttir


Fjármálaeftirlitið hefur metið Kaupþing ehf. hæft til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf.

22.9.2017

Fjármálaeftirlitið tilkynnti Kaupþingi ehf. í dag að það teljist hæft til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka hf. sem nemur allt að 33%, þ.m.t. dótturfélögunum Stefni hf., Valitor hf., Verði tryggingum hf. og Verði líftryggingum hf., sbr. VI. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og X. kafla laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi.

Ákvörðunin tekur gildi þegar hlutabréf í Arion banka hf. hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Fram að því munu skilyrði Fjármálaeftirlitsins frá 8. janúar 2010, um eignarhald Kaupþings ehf. í bankanum í gegnum Kaupskil ehf., gilda óbreytt.

Einnig hefur Fjármálaeftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að Kaupþing ehf. og Taconic Capital Advisors LP og tengdir aðilar teljist í samstarfi í skilningi c-liðar 25. tölul. 1. mgr. 1 gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. VI. kafla sömu laga. Samanlagður virkur eignarhlutur þeirra í bankanum getur því einungis numið allt að 33%.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort sá sem hyggst eignast virkan eignarhlut sé hæfur til að fara með eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Matið grundvallast á viðmiðum, sem fram koma í 2. mgr. 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki, auk þess sem stofnunin hefur hliðsjón af viðmiðunarreglum evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði frá 2008 og 2016.[1]

Kaupþing ehf. fer nú með um 57,42% hlut í Arion banka hf. í gegnum dótturfélagið Kaupskil ehf. Um eignarhaldið gilda fyrrnefnd skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setti hinn 8. janúar 2010.

Mat Fjármálaeftirlitsins grundvallaðist á tilkynningu Kaupþings ehf. til að fara með allt að 33% virkan eignarhlut í Arion banka hf., fylgiskjölum hennar og öðrum upplýsingum sem stofnunin aflaði frá félaginu.

Við matið var sérstaklega horft til fyrirhugaðs skamms eignarhalds Kaupþings ehf. í Arion banka hf. og þess að bankinn telst kerfislega mikilvægt fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu fjármálastöðugleikaráðs. Með hliðsjón af því kannaði Fjármálaeftirlitið sérstaklega getu Kaupþings ehf. til að styðja fjárhagslega við bankann við sérstakar aðstæður, sem og fyrirhuguð áhrif félagsins á stjórnun bankans.



[1] Sbr. Guidelines for the prudential assessment of acquisitions and increases in holdings in the financial sector required by Directive 2007/44/EC (CEBS/2008/214) og Joint Guidelines on the prudential assessment of acquisitions and increases of qualifying holdings in the financial sector (JC/GL/2016/01).

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica