Fjármálaeftirlitið ítrekar að sjóðfélagar sem ráðstafa hluta í séreignasjóð ráða sjálfir í hvaða séreignasjóð það verður
Um síðastliðin
mánaðamót tóku sem kunnugt er gildi breytingar á samþykktum hjá talsverðum
fjölda lífeyrissjóða þar sem þeim var heimilað að taka á móti svokallaðri
tilgreindri séreign í samræmi við kjarasamning milli aðildarfélaga
Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Vegna villandi
fréttaflutnings og upplýsinga á heimasíðum lífeyrissjóða ákvað Fjármálaeftirlitið
að senda lífeyrissjóðum dreifibréf þar sem ítrekað er að þeir sjóðfélagar
sem ráðstafa hluta í séreignasjóð ráði sjálfir í hvaða séreignasjóð það verður.
Í dreifibréfinu
sem birt er hér fyrir neðan fer Fjármálaeftirlitið fram á að lífeyrissjóðir upplýsi
sjóðfélaga sína um rétt sinn til að ráðstafa séreignarhluta iðgjalds vegna
lágmarkstryggingaverndar til annars aðila. Þá fer Fjármálaeftirlitið fram á að
lífeyrissjóðir yfirfari heimasíður sínar og fjarlægi villandi upplýsingar um
framangreint og leiðrétti fréttaflutning sinn ef tilefni er til.
Dreifibréf Fjármálaeftirlitsins til lífeyrissjóða