Fréttir


Fjármálaeftirlitið sendir dreifibréf til lífeyrissjóða varðandi umboð stjórnarmanna

3.7.2019

Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar undanfarna daga hefur Fjármálaeftirlitið beint því með dreifibréfi til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar með það að leiðarljósi að skýra hvort og þá við hvaða aðstæður sé mögulegt að afturkalla umboð stjórnarmanna sem kjörnir/tilnefndir hafa verið. 

Í 5. tölul. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, kemur fram að í samþykktum lífeyrissjóða skuli m.a. kveða á um hvernig vali stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og kjörtímabili þeirra skuli háttað. Ekki er frekar kveðið á um hvernig að tilnefningu eða kjöri skuli staðið eða hvort afturköllun sé heimil, eins og gert er með skýrum hætti t.d. í 64. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þar sem fram kemur að sá sem kjörið hefur eða tilnefnt stjórnarmann geti vikið honum frá störfum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Eins og að framan greinir fer um val stjórnarmanna eftir ákvæðum í samþykktum lífeyrissjóða. Samþykktir lífeyrissjóða eru þó almennt hljóðar um hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. Óskýrar samþykktir hvað þetta varðar gera ferli við val og mögulega afturköllun á umboði stjórnarmanna ógagnsætt.

Góðir stjórnarhættir eru mikilvægir í starfsemi lífeyrissjóða og er víða fjallað um þá m.a. í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða samþykktum, starfsreglum stjórna og stjórnarháttaryfirlýsingum margra íslenskra lífeyrissjóða.

Afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða sem byggir á ósætti tilnefningaraðila við einstakar ákvarðanir stjórnar getur talist tilraun til beinnar íhlutunar í stjórnun lífeyrissjóða, sem með óbeinum hætti færir ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins. Slíkt vegur að sjálfstæði stjórnar og gengur í berhögg við almenn sjónarmið um góða stjórnarhætti.

Í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar undanfarna daga, mismunandi aðferða við val á stjórnarmönnum milli sjóða og til að koma í veg fyrir óvissu til framtíðar, beinir Fjármálaeftirlitið því til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar varðandi hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. Að mati Fjármálaeftirlitsins er við skoðunina nauðsynlegt að taka mið af góðum stjórnarháttum og tryggja að sjálfstæði stjórna lífeyrissjóða verði ekki skert.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica