Fréttir


Fjármálaeftirlitið setur sér stefnu um beitingu þvingunarúrræða og viðurlaga - Nýlegar breytingar á stjórnvaldssektarheimildum eftirlitsins

2.10.2015

Fjármálaeftirlitið hefur sett sér stefnu um beitingu þvingunar- og viðurlagaúrræða. Samkvæmt stefnunni hyggst Fjármálaeftirlitið bregðast, af festu og á markvissan hátt, við brotum á lögum og reglum, þar með talið um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti og brotum gegn ákvörðunum eftirlitsins. Það verður gert með beitingu þvingunarúrræða, viðurlaga og eftir atvikum með því að endurmeta hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila.

Enn fremur kemur fram í stefnunni að Fjármálaeftirlitið hyggist ljúka málum vegna brota með samkomulagi um sátt að því gefnu að málsaðili óski þess  og að skilyrði fyrir sátt séu uppfyllt. Tekið er fram að ekki sé þó hægt að ljúka málum með sátt þegar um er að ræða meiriháttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Í sátt felst að aðili gengst við að hafa brotið gegn ákvæðum laga, reglna eða gegn ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, greiðir tiltekna sektargreiðslu sem Fjármálaeftirlitið ákveður, og eftir atvikum undirgengst önnur skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setur. Sektarfjárhæð í málum sem lokið er með sátt getur verið allt að helmingi lægri en fjárhæð stjórnvaldssektar og ræðst lækkunin af því á hvaða stigi meðferð máls er við gerð sáttar.

Hér er stefna Fjármálaeftirlitsins um beitingu þvingunar- og viðurlagaúrræða.

Nýlegar breytingar á stjórnvaldssektarheimildum Fjármálaeftirlitsins

  • Þann 16. júlí sl. tóku gildi lög nr. 58/2015 sem fólu í sér veigamiklar breytingar á stjórnvaldssektarheimildum Fjármálaeftirlitsins í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa og nr. 110/2007 um kauphallir [1]. Ákvæði laga nr. 58/2015 gilda um brot sem framin eru eftir gildistöku þeirra en í stuttu máli fólu lögin í sér eftirfarandi breytingarnar:
  • Stjórnvaldssektir á lögaðila - hámarksfjárhæð hækkuð og heimilt að tengja við veltu lögaðila:Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta nú numið allt að 800 milljónum króna en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðila er hluti af samstæðu og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu. Fyrir gildistöku laga nr. 58/2015 gat stjórnvaldssekt að hámarki numið 50 milljónum króna.
  • Stjórnvaldssektir á einstaklinga - hámarksfjárhæð hækkuð: Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta nú numið allt að 65 milljóna króna en fyrir lagabreytinguna var hámarkið 20 milljónir króna.
  • Taka má mið af fjárhagslegum ávinningi við ákvörðun stjórnvaldssektar:Við ákvörðun stjórnvaldssekta vegna brota á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er nú heimilt er að ákvarða stjórnvaldssekt með hliðsjón af fjárhagslegum ávinningi hins brotlega af broti. Getur fjárhæð stjórnvaldssektar þá numið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nemur. Stjórnvaldssekt sem miðast við fjárhagslegan ávinning er því ekki bundin við þau fjárhæðarmörk sem annars gilda um stjórnvaldssektir sem heimilt er að leggja á lögaðila og einstaklinga.
  • Fleiri sjónarmið sem líta ber til við ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssekta:Fjármálaeftirlitinu ber nú að líta til fleiri sjónarmiða en áður við ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssekta.

[1] Sjá nánar 2. mgr. 110. gr. laga nr. 161/2002, 3. mgr. 141. gr. laga nr. 108/2007, 3. mgr. 65. gr. laga nr. 128/2011, 2. mgr. 34. gr. laga nr. 131/1997 og 2. mgr. 33. gr. laga nr. 110/2007.  

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica