Fréttatilkynning EIOPA um niðurstöður mats á stöðu innleiðingar eigin áhættu- og gjaldþolsmats vátryggingafélaga (ORSA)
Fjármálaeftirlitið vekur athygli á fréttatilkynningu Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) um niðurstöður mats á stöðu innleiðingar eigin áhættu- og gjaldþolsmats vátryggingafélaga (ORSA). Fjármálaeftirlitið hvetur vátryggingafélög til að kynna sér niðurstöður EIOPA.
Helstu niðurstöður eru:
- Meirihluti vátryggingafélaga hefur náð góðum árangri í innleiðingu á ORSA. EIOPA hvetur þó smærri félög til að þróa ORSA ferlið frekar, þar á meðal stefnu um ORSA og gæði gagna til grundvallar áhættumati.
- Þörf er á meiri þátttöku stjórna vátryggingafélaga í ORSA ferlinu. EIOPA hvetur vátryggingafélög til að auka þátttöku stjórnar í ORSA ferlinu. EIOPA hvetur stjórnarmenn til að vera leiðandi og taka virkan þátt í ORSA matinu. EIOPA ætlast til að stjórnarmenn noti niðurstöður ORSA við stefnumótandi ákvarðanir með það að markmiði að efla áhættustýringu félagins.
- Frekari útvíkkun á umfangi áhættumats. Samkvæmt kröfum ORSA skulu vátryggingafélög meta allar helstu núverandi og mögulegar áhættur, þar með talið þær sem eru ekki mælanlegar. Niðurstöður sýna að áhættumat vátryggingafélaga felur ekki alltaf í sér allar mögulegar áhættur og í mörgum tilfellum er matið ekki í samræmi við viðskiptalíkan eða stefnumótandi aðgerðir stjórnenda félagsins. Því mælir EIOPA með að vátryggingafélög dýpki áhættugreiningu sína og auki umfang áhættumats.
- Of mikið traust vátryggingafélaga á staðalregluna. Bæta þarf frekar mat á mikilvægi þess hvort áhættusnið félaganna víki frá forsendum sem liggja til grundvallar gjaldþolskröfunni samkvæmt staðalreglunni. EIOPA ætlast til að öll vátryggingafélög framkvæmi mat á áhættusniði sínu við útreikning á heildargjaldþolsþörf, að teknu tilliti til hlutfallsreglunnar.
- Þörf er á að bæta gæði álagsprófa, þ.m.t. próf á viðnámsþrótti (e. reverse stress testing) og sviðsmyndir í mati á ORSA. Álag og sviðsmyndir sem vátryggingafélög nota ættu annars vegar að gera félögunum kleift að meta þá áhættu sem þegar er til staðar en einnig áhættu sem gæti komið upp til framtíðar og hins vegar að meta það gjaldþol sem þörf er á til að takast á við framangreinda áhættu. EIOPA hvetur vátryggingafélög til að bæta frekar gæði álagsprófa.