Íslenskir bankar í fyrsta sinn með í yfirliti EBA um áhættuvísa í starfsemi evrópskra banka
Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (European Banking Authority, EBA) hefur frá 2013 ársfjórðungslega gefið út yfirlit um fjölmarga áhættuvísa í starfsemi evrópskra banka (EBA Risk Dashboard). Vegna lagalegra og tæknilegra ástæðna hófust gagnaskil frá Fjármálaeftirlitinu til EBA ekki fyrr en að loknum fjórða ársfjórðungi 2017. Íslensku bankarnir Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn eru því í fyrsta sinn með í yfirliti EBA sem byggist á tölum fyrsta ársfjórðungs 2018. (http://www.eba.europa.eu/risk-analysis-and-data/risk-dashboard).
Öll aðildarríki Evrópusambandsins auk Íslands, Liechtenstein og Noregs eiga aðild að EBA. Áhættuyfirlitin byggjast á stöðluðum skýrsluskilum bankaeftirlita í 30 aðildarríkjum og gögnum frá 152 evrópskum bönkum. Eingöngu Liechtenstein er ekki með. Tölurnar eru því samanburðarhæfar milli banka og landa.
Í yfirlitinu eru ekki birtar upplýsingar um einstaka banka heldur er birt vegið meðaltal af tölum frá bönkum í viðkomandi landi byggt á stærð bankanna. Minnst þrjá banka þarf til að tölur séu birtar fyrir viðkomandi land.