Kaup á eignarhlut í Arion banka
Í tilefni frétta af kaupum á eignarhlut í Arion banka vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi á framfæri.
Fjármálaeftirlitið hefur það hlutverk að meta hæfi virkra eigenda að fjármálafyrirtækjum og geta kaup á virkum eignarhlut ekki komið til framkvæmda fyrr en stofnunin hefur tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut að hann sé hæfur til að fara með eignarhlutinn. Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í fjármálafyrirtæki sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags. Varðandi mat á hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut vísast til umfjöllunar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.
Með umræddum kaupum fjögurra fjárfesta á tæplega 30% eignarhlut í Arion banka myndast ekki nýr virkur eignarhlutur í bankanum þar sem einstakir fjárfestar fara með minna en 10% eignarhlut. Kaupin hafa ekki áhrif á skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setti árið 2010 fyrir virkum eignarhlut Kaupþings í gegnum eignarhaldsfélagið Kaupskil í bankanum sem m.a. takmarka verulega áhrif hluthafa Kaupþings á stjórnun bankans, en umræddir fjárfestar fara beint eða óbeint með eignarhlut í Kaupþingi. Fjármálaeftirlitið hefur áskilið sér rétt til að taka upp ofangreind skilyrði og hefur sett fram tímamörk í því skyni. Umræddum eignarhlutum fylgir ekki atkvæðisréttur að svo stöddu.
Fjármálaeftirlitið var upplýst um kaup á eignarhlut í Arion banka og var í aðdraganda þeirra í samskiptum við viðeigandi aðila vegna málsins. Þá á Fjármálaeftirlitið von á tilkynningum um virka eignarhluti í Arion banka vegna mögulegs aukins eignarhlutar. Á grundvelli slíkra tilkynninga leggur Fjármálaeftirlitið mat á hæfi aðila til að fara með eignarhlutinn og aflar m.a. upplýsinga um raunverulega eigendur þeirra.
Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að fjármálafyrirtækjum ber að tilgreina nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár á heimasíðu sinni. Sé lögaðili eigandi hlutafjár umfram 1% skal jafnframt koma fram hvaða einstaklingur eða einstaklingar séu raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila.