Fréttir


Kröfur varðandi starfsemi lífeyrissjóða

28.11.2018

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum vill Fjármálaeftirlitið minna á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lífeyrissjóða.

Lífeyrissjóðir veita viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli, örorku eða andláts og lýtur starfsemi þeirra að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Lífeyrissjóðum er óheimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná framangreindum tilgangi, skv. 20. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 2. mgr. 1. gr. sömu laga.

Í 29. gr. laga nr. 129/1997  kemur fram að stjórn lífeyrissjóðs ber ábyrgð á að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við nefnd lög, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Þá setur stjórn lífeyrissjóðs honum fjárfestingarstefnu, sbr. 1. mgr. 36. gr. nefndra laga og ber við þá vinnu að hafa hagsmuni allra sjóðfélaga að leiðarljósi. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs ber ábyrgð á því að fjárfestingarstefnu stjórnar sé framfylgt. 

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr.  laga nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Við mat á framangreindu lítur Fjármálaeftirlitið m.a. til ákvæða laga nr. 2/1995, um hlutafélög, en í 76. gr. þeirra laga segir „Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.“

Með hliðsjón af framangreindu telur Fjármálaeftirlitið að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem að framan var lýst.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica