Fréttir


Morgunverðarfundur um samkeppnisumhverfi fjármálakerfisins í tilefni 20 ára afmælis Fjármálaeftirlitsins

29.1.2019

Fjármálaeftirlitið efnir til morgunverðafundar um samkeppnisumhverfi fjármálakerfisins þriðjudaginn 12. febrúar næstkomandi. Fundurinn verður haldinn í Gullteigi á Grand Hótel Reykjavík. Morgunverður hefst kl. 8:00, fundurinn sjálfur stendur frá 8:30 til 10:00.

Tilefni fundarins er að Fjármálaeftirlitið hefur starfað í tuttugu ár og er fundurinn sá fyrsti í röð funda um áhugaverð málefni tengd fjármálakerfinu sem Fjármálaeftirlitið hyggst halda af því tilefni.

Framsögumenn verða: Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman og einn höfunda Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Pallborðsumræður verða að loknum ávörpum þar sem Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins bætist í hópinn. Fundarstjóri er Fanney Birna Jónsdóttir.

Efni fundarins er valið með hliðsjón af því að í desember síðastliðnum kom út Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið þar sem ljósi var varpað á ýmsa þætti er varða stöðu og þróun fjármálakerfisins. Á fundinum verður samkeppnisumhverfi fjármálakerfisins til umræðu, m.a. í ljósi mikilla tæknibreytinga, nýs regluverks og fyrirhugaðra breytinga á eignarhaldi banka í eigu ríkisins.

Fundurinn er öllum opinn. Óskað er eftir að fundargestir skrái þátttöku eigi síðar en 8. febrúar næstkomandi á fme@fme.is.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica