Neytendur á vátryggingamarkaði minntir á mikilvægi upplýstrar ákvörðunar við breytingu á líf- og/eða sjúkdómatryggingum
Fjármálaeftirlitið minnir á mikilvægi þess að um upplýsta ákvörðun sé að ræða þegar ákveðið er að færa líf- og/eða sjúkdómatryggingar milli vátryggingafélaga.
Þótt slíkar tilfærslur kunni að vera til góðs, bæði hvað varðar einstaka neytendur og samkeppni á markaði almennt, vekur Fjármálaeftirlitið athygli á mikilvægi þess að neytendur byrji á að kynna sér ítarlega þá vátryggingavernd sem þeir þegar hafa og beri hana vandlega saman við þá vernd sem til skoðunar er að kaupa. Í því sambandi ber m.a. að skoða markmið þess að vátryggingin er keypt, þau iðgjöld sem í boði eru, vátryggingafjárhæðir, vátryggingaverndina og skilmála almennt. Mikilvægt er að fá leiðsögn sérfróðra aðila í þessum efnum þ.e. vátryggingasölumanna vátryggingafélaga eða vátryggingamiðlara, þar sem þeir hafa sérstökum skyldum að gegna við sölu vátrygginga. Meðal annars má vekja athygli á því sem efnislega segir í 9. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, að við öflun vátrygginga skal gætt hags vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
Sé vátrygging keypt í gegnum vátryggingamiðlara er rétt að hafa í huga að samkvæmt 31. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga, skal vátryggingamiðlari áður en vátryggingarsamningur er gerður skilgreina, einkum á grundvelli upplýsinga frá væntanlegum vátryggingartaka, kröfur hans og þarfir. Skal hann skýra væntanlegum vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggi að baki ráðleggingum sínum. Rökstuðningur skal taka mið af eðli þess vátryggingarsamnings sem mælt er með.
Fjallað er um sambærilega starfshætti annarra vátryggingasölumanna, þ. á m. þeirra sem starfa fyrir vátryggingafélög í 7. gr. leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins um starfshætti vátryggingasölumanna, vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og vátryggingafélaga nr. 3/2007.
Það er mikilvægt að huga vel að vátryggingaþörf hverju sinni. Gildistími svonefndra persónutrygginga, þ.e. líf- og sjúkdómatrygginga, er jafnan til langs tíma og því mikilvægt að hafa skilning á þeirri vernd sem í boði er.
Þá áréttar Fjármálaeftirlitið mikilvægi þess að vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn starfi í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur á vátryggingamarkaði og með hag vátryggðra fyrir augum.