Fréttir


Niðurstöður álagsprófs á evrópsk vátryggingafélög

1.12.2014

Evrópska eftirlitsstofnunin á lífeyris- og vátryggingamarkaði (EIOPA) hefur birt niðurstöðu álagsprófs á vátryggingafélög á Evrópska efnahagssvæðinu. Allar starfandi samstæður íslenskra vátryggingafélaga tóku þátt í svokölluðu kjarnaálagsprófi (e. core module) en auk þess prófaði EIOPA sérstaklega áhrif lágvaxtaumhverfis í þeim ríkjum þar sem slíkt á við.

Markmiðið með álagsprófinu var að meta almennt álagsþol vátryggingageirans og að greina helstu veikleika hans.

Í kjarnaálagsprófinu var miðað við upphaflega stöðu félaganna eins og hún væri samkvæmt Solvency II tilskipuninni sem taka á gildi 1. janúar 2016 og prófuð áhrif þjóðhagfræðilegra áfalla auk sértækra áfalla fyrir vátryggingamarkaðinn.

Heildarniðurstöður prófsins voru þær að markaðurinn stendur almennt nokkuð vel gagnvart væntanlegum Solvency II reglum. Um 14% vátryggingafélaga, sem eiga 3% af eignum, hafa gjaldþolshlutfall sem er lægra en 100% sem þýðir að þau þurfa væntanlega aukið fjármagn eða að draga úr áhættu fyrir gildistöku Solvency II. Enginn samstæðanna hér á landi er í þeirri stöðu.

Niðurstöður álagsprófsins sýna að á Evrópska efnahagssvæðinu er markaðurinn viðkvæmastur fyrir svokallaðri tvöfaldri sviðsmynd (e. double hit) sem lýsir sér í því að bæði virði eigna og vextir lækka. Þrátt fyrir það stenst 56% samstæðnanna álagsprófið.

EIOPA leggur áherslu á að eftirlitsstjórnvöld bregðist við niðurstöðum álagsprófsins með samræmdum hætti og hefur því gefið þeim nokkur ráð. Þau ráð sem varða íslenska markaðinn og Fjármálaeftirlitið eru eftirfarandi:

  1. Ítarleg skoðun á því hversu vel vátryggingafélög eru búin undir Solvency II, sér í lagi í þeim tilvikum þar sem þörf er á auknu fjármagni.
  2. Tryggja að vátryggingafélög hafi skýran skilning á áhættuskuldbindingum sínum og á hvaða sviðum þau eru viðkvæmust. Tryggja þarf að félögin geti brugðist við yfirvofandi hættu.

Fjármálaeftirlitið mun taka tillit til þessara ráðlegginga í störfum sínum.

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica