Fréttir


Fjármálaeftirlitinu falið eftirlit með fagfjárfestasjóðum

1.11.2011

Þann 17. september síðastliðin samþykkti Alþingi ný lög um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, nr. 128/2011. Samkvæmt IV. kafla laganna er Fjármálaeftirlitinu falið eftirlit með fagfjárfestasjóðum frá og með gildistöku laganna þann 1. nóvember. Um nýmæli er að ræða, en hingað til hafa fagfjárfestasjóðir ekki lotið skipulögðu eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Einungis rekstrarfélögum verðbréfasjóða (fjármálafyrirtæki sem reka verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði) hefur verið skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stofnun fagfjárfestasjóða í þeirra rekstri.

Samkvæmt IV. kafla laganna ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um stofnun fagfjárfestasjóða innan eins mánaðar frá stofnun þeirra. Yfirlit yfir þau gögn og upplýsingar sem þurfa að fylgja með tilkynningu um stofnun fagfjárfestasjóðs er að finna hér.

Starfandi fagfjárfestasjóðum, þ.e. sjóðir sem stofnaðir eru fyrir 1. nóvember, ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsemi sína fyrir 1. desember 2011, sbr. bráðabirgðaákvæði II við áðurnefnd lög. Þeir skulu skila inn gögnum og upplýsingum í samræmi við framangreint yfirlit. Þá skal þess getið að sjóðsstjórar í fagfjárfestasjóðum, sem nú þegar eru starfandi, hafa frest til 1. nóvember 2013 til að ljúka prófi í verðbréfaviðskiptum.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica