Kynningarfundur um skýrsluskil og upplýsingatækni í Solvency II
Í upphafi nóvember sl. hóf EIOPA, eftirlitsstofnun ESB fyrir vátryggingamarkað á evrópska efnahagssvæðinu umsagnarferli vegna skýrsluskila og opinberrar upplýsingagjafar í Solvency II. Þessi hluti væntanlegs Solvency II regluverks fyrir vátryggingafélög hefur oft verið nefndur Stoð 3 (Pillar 3) en sá hluti hefur fengið aukið vægi eftir því sem tími fram að fyrirhugaðri innleiðingu 1. janúar 2014 styttist.
Umsagnarferlið snýst annars vegar um drög að eyðublöðum sem sýna töluleg gögn sem skila þarf til eftirlitsstjórnvalda og hins vegar drög að leiðbeiningum vegna annarra upplýsinga sem eru birtar opinberlega eða sendar í sérstakri skýrslu til eftirlitsstjórnvalda.
Í tilefni af umsagnarferlinu ákvað Fjármálaeftirlitið að bjóða til kynningarfundar um ofangreind málefni sem haldinn var 19. desember. Fundinn sóttu forstjórar vátryggingafélaga, ábyrgðaraðilar innleiðingar Solvency II hjá vátryggingafélögum, ábyrgðaraðilar upplýsingatækni og endurskoðendur félaganna.
Farið var yfir nýju eyðublöðin og tengingu þeirra við núverandi skýrsluskil. Gögnin í eyðublöðunum verða byggð upp samkvæmt XBRL (eXtensible Business Reporting Language) staðlinum. Farið var sérstaklega yfir þennan staðal og hvað vátryggingafélög þurfa að gera til að undirbúa skil á þessu formi. Einnig var á fundinum lögð áhersla á að kynna hvað muni breytast í opinberri upplýsingagjöf og var því endurskoðendum vátryggingafélaga boðið til fundarins.
Glærukynningu frá fundinum má sjá hér. Kynningin inniheldur m.a. upplýsingar um tengla og tól sem hægt er að nýta til að kynna sér XBRL.
Umræðuskjöl EIOPA má sjá á vef EIOPA undir fyrirsögninni „Draft proposal on Quantitative Reporting Templates and Draft proposal for Guidelines on Narrative Public Disclosure & Supervisory Reporting, Predefined Events and Processes for Reporting & Disclosure”.