Fréttir


Fjármálaeftirlitið ræður framkvæmdastjóra þriggja nýrra eftirlitssviða

4.1.2012

Unnið hefur verið að skipulagsbreytingum innan Fjármálaeftirlitsins frá því í október síðastliðnum með virkri þátttöku starfsmanna. Afrakstur vinnunar er endurskipulagning Fjármálaeftirlitsins sem meðal annars felst í því að fimm svið hafa verið lögð niður og þrjú ný eftirlitssvið stofnuð. Nýju eftirlitssviðin þrjú eru eindareftirlit, vettvangsathuganir og greiningar- og áætlanir.

Hið nýja skipulag er verkefnamiðað og taka nýju eftirlitssviðin þrjú við öllum verkefnum frá þeim fimm eldri sviðum sem lögð eru niður en skipting þeirra tók að miklu leyti mið af geirum fjármálamarkaðarins. Markmið skipulagsbreytinganna er að auka enn skilvirkni og samhæfingu í starfseminni. Nýtt skipulag býður meðal annars upp á meiri sveigjanleika í nýtingu mannauðs og hámarkar þannig slagkraft Fjármálaeftirlitsins.

Stöður framkvæmdastjóra eftirlitssviðanna þriggja voru auglýstar í nóvember síðastliðnum og hefur Fjármálaeftirlitið nú gengið frá ráðningu framkvæmdastjóra þeirra. Halldóra E. Ólafsdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri lífeyris- og verðbréfasjóðasviðs Fjármálaeftirlitsins frá því í apríl 2008, var ráðin framkvæmdastjóri eindareftirlitssviðs. Lúðvík Þorgeirsson, sem starfað hefur hjá Actavis og þar áður hjá Tryggingamiðstöðinni hf. var ráðinn framkvæmdastjóri greiningar- og áætlanasviðs. Sigurveig Guðmundsdóttir, hagfræðingur á lífeyris- og verðbréfasjóðasviði Fjármálaeftirlitsins, var ráðin framkvæmdastjóri vettvangsathugunarsviðs. Nýju framkvæmdastjórarnir munu fljótlega taka til starfa og taka virkan þátt í uppbyggingu nýrra eftirlitssviða.

Alls bárust 72 umsóknir um framkvæmdastjórastörfin. Við ráðningu og val naut Fjármálaeftirlitið aðstoðar Capacent. Fram fór fjölþætt mat á umsækjendum þar sem lagt var mat á mismunandi hæfniþætti, meðal annars með viðtölum, persónuleikaprófum og skriflegum verkefnum.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica