Breyting á leiðbeinandi tilmælum nr. 1/2011 um áhættustýringu vátryggingafélaga
Í 70 . tölul. leiðbeinandi tilmæla nr. 1/2011 segir að ef vátryggingafélag velji að fjárfesta í sérstökum tegundum eigna skuli fjárfestingarstefna félagsins tilgreina nokkur upptalin atriði. Ein þessara eignategunda er það sem á ensku kallast „asset backed securities“ sem í tilmælunum er þýtt sem „eignatengd verðbréf“. Komið hefur í ljós að þessi þýðing gæti valdið misskilningi. Í reglum Seðlabanka Íslands nr. 808/2008 um viðskipti fjármálafyrirtækja við bankann er hugtakið þýtt sem „eignavarin verðbréf“.
Fjármálaeftirlitið hefur því gert þá smávægilegu breytingu á leiðbeinandi tilmælum nr. 1/2011 að þýðingunni á hugtakinu „asset backed securities“ er breytt í samræmi við áðurnefndar reglur Seðlabanka Íslands.