Fréttir


FME: Samræming á beitingu löggjafar um markaðssvik innan EES

10.12.2006

FME hefur að undanförnu tekið þátt í vinnu á vettvangi Samtaka evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR) við mótun leiðbeininga um túlkun og beitingu tiltekinna ákvæða í tilskipun Evrópusambandsins um markaðssvik nr. 2003/6/EC (MAD).  Leiðbeiningarnar koma í kjölfarið á fyrstu leiðbeiningum CESR um beitingu MAD, sem birtar voru í mars 2005.  Markaðsaðilar tóku þessum leiðbeiningum vel og óskuðu eftir frekari ráðgjöf.  Megin tilgangur leiðbeininganna er að samræma beitingu löggjafar um markaðssvik innan EES.

Þau efnisatriði sem fjallað er um í öðrum drögum að leiðbeiningum um CESR eru eftirfarandi:

  • Hvað fellur undir innherjaupplýsingar?
  • Hvenær er lögmætt að fresta birtingu innherjaupplýsinga?
  • Hvenær eru fyrirmæli viðskiptavina (client orders) innherjaupplýsingar?
  • Gagnkvæm viðurkenning á innherjalistum á milli ríkja

Í leiðbeiningunum felst sameiginlegur skilningur aðila að CESR, þ.m.t. FME, á þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem leiðbeiningarnar taka til.  Leiðbeiningarnar verða í umsagnarferli fram til 2. febrúar 2007.  Eftir að leiðbeiningarnar hafa verið gefnar út með formlegum hætti mega markaðsaðilar gera ráð fyrir að FME framfylgi reglunum í samræmi við þann skilning sem fram kemur í leiðbeiningum CESR.  Er því skorað á þá aðila sem telja sig hafa hagsmuna að gæta að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum við CESR, innan tilskilins frests, sem er 2. febrúar 2007.  Umræðuskjalið er að finna á heimasíðu CESR og er aðilum sem vilja koma að athugasemdum bent á að gera það beint til CESR í gegnum heimasíðuna.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um skil á athugasemdum er að finna á heimasíðu CESR.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica