Fréttir


Frétt frá Fjármálaeftirlitinu: Álagspróf Fjármálaeftirlitsins

10.12.2006

Í frétt frá Fjármálaeftirlitinu sem birt var á heimasíðu þess 14. mars 2006 var gerð grein fyrir breytingum á reglum um viðmið við ákvörðun um hærra eiginfjárhlutfall fyrir fjármálafyrirtæki, nr. 530/2004, sbr. breytingarreglurnar nr. 177/2006. Í umfjölluninni um breytingarnar kom fram að samkvæmt álagsprófinu hefðu allir viðskiptabankarnir staðist það m.v. sl. áramót.

Sá hluti álagsprófsins sem fjallar um tapsáhættu útlána miðast við vaxtafryst/virðisrýrð útlán sem um þessar mundir eru með lægsta móti m.v. sögulega reynslu. Af þeim ástæðum hefur FME ákveðið að reikna út áhrif af viðbótaráfalli sem miðast við eftirfarandi forsendur:
Reiknað er með viðbótar afskriftaframlagi/virðisrýrnun vegna útlána til innlendra aðila, annarra en íbúðaveðlána, sem nemur hæsta árlegu afskriftahlutfalli síðustu 10 ára fyrir viðskiptabankana (1,8%) annars vegar og 6 stærstu sparisjóði í heild (2,0%) hins vegar.
Reiknað er viðbótar afskriftaframlag/virðisrýrnun vegna íbúðaveðlána (0,2%) sem er hæsta árlega afskriftaframlag hjá Íbúðalánasjóði síðustu 7 árin en tekið skal þó fram að tapreynsla m.v. endanlega töpuð útlán sjóðsins er minna en 0,1% af útlánum.

Niðurstaða ofangreindra útreikninga er sú að fyrir viðskiptabankana og 6 stærstu sparisjóði myndi viðbótar útlánatap m.v. þessar forsendur vera 24 ma.kr. m.v. stöðu viðkomandi útlána í árslok 2005 samanborið við 7 ma.kr. áhrif af 20% lækkun vaxtafrystra/virðisrýrðra útlána og fullnustueigna. Lækkun á eiginfjárhlutfalli, til viðbótar við fyrri forsendu um útlánatap, nemur að meðaltali 0,5% stigum fyrir viðskiptabankana og rúmlega 1,1% stigi fyrir stærstu sparisjóðina og standast öll viðkomandi fjármálafyrirtæki þetta viðbótarálagspróf.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica