Athugasemd vegna fréttar Stöðvar 2 og Vísis
Í tilefni fréttar Stöðvar 2 og Vísis í gærkveldi þar sem sagt var að formaður efnahags og viðskiptanefndar Alþingis hefði í þrígang beðið Fjármálaeftirlitið að reikna út áhrif gengislánadóms Hæstaréttar áður en hann féll vill Fjármálaeftirlitið árétta eftirfarandi: Umrædd ósk formanns efnahags- og viðskiptanefndar laut einungis að því að stofnunin myndi meta áhrif þess á fjármálakerfið ef dómur Hæstaréttar yrði í samræmi við niðurstöðu fræðigreinar Ásu Ólafsdóttur, lektors við lagadeild HÍ, sem birtist í nýjasta tölublaði Úlfljóts.
Í ljósi þess að slíkt mat er bæði gríðarlega tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir alla hlutaðeigandi tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að bíða fremur eftir dómi Hæstaréttar sem var á næsta leiti. Þessi ákvörðun reyndist skynsamleg ekki síst vegna þess að forsendur nýfallins dóms Hæstaréttar eru töluvert frábrugðnar þeim sem lagðar eru til grundvallar í fræðigreininni.
Fjármálaeftirlitið vinnur nú hörðum höndum að því að greina forsendur dómsins og móta aðferðafræði sem unnt er að nota við endurreikning útlánasafna lánastofnana til að meta áhrif hans á bókfært virði þeirra.