Túlkun varðandi aðild fjármálafyrirtækja í slitaferli að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki
Fjármálaeftirlitið gaf nýlega út túlkun á 2. málsgrein 19 greinar laga númer 161/2002 varðandi aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Beinist túlkunin að fjármálafyrirtækjum í slitaferli.
Í túlkuninni bendir Fjármálaeftirlitið meðal annars á að ráða megi af markmiði og tilgangi laga sbr. 101. gr. a laganna að vilji löggjafans standi til þess að jafna stöðu þeirra sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart fjármálafyrirtæki í slitaferli til jafns við þá sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart starfandi fjármálafyrirtæki. Það sé ótvíræður kostur fyrir viðskiptavini fjármálafyrirtækja í slitaferli að geta lagt ágreining sinn undir úrskurðarnefndina.
Það er mat Fjármálaeftirlitsins, byggt á framansögðu og fleiri atriðum sem rakin eru í túlkuninni að fjármálafyrirtæki í slitaferli og dótturfélög sem halda utan um eignir þess skuli eiga aðild að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki með ákveðnum takmörkunum.
Túlkun Fjármálaeftirlitsins með nánari tilvísunum og rökstuðningi má sjá hér.