Persónuvernd segir Fjármálaeftirlitinu heimilt að afla nauðsynlegra persónuupplýsinga og varðveita þær
Fjármálaeftirlitið hefur, í kjölfar nýfallins úrskurðar Persónuverndar, hafið endurskoðun á reglum eftirlitsins um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja og því eyðublaði sem Fjármálaeftirlitið notast við til að afla upplýsinga í tengslum við mat á fjárhagslegu sjálfstæði viðkomandi aðila. Vonast er til að þeirri vinnu ljúki á næstu vikum.
Þegar Fjármálaeftirlitið metur hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja skal það meðal annars leggja mat á fjárhagslegt sjálfstæði þeirra. Var þessu hæfisskilyrði bætt við með lögum nr. 75/2010 sem breyttu lögum um fjármálafyrirtæki og með lögum nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. Hliðstætt ákvæði varðandi lífeyrissjóði kom inn með lögum nr. 122/2011.Í kjölfar lagasetningarinnar vann Fjármálaeftirlitið reglur (nr.627/2011) um framkvæmd hæfismatsins. Þá var útbúið sérstakt eyðublað innan Fjármálaeftirlitsins er beindist að fjárhagslegu sjálfstæði.
Persónuvernd tók upplýsingaöflun Fjármálaeftirlitsins í þessu sambandi til skoðunar. Mat Persónuverndar var að Fjármálaeftirlitinu væri heimilt að fá og varðveita þær persónuupplýsingar um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra sem því væru nauðsynlegar til að leggja mat á fjárhagslegt sjálfstæði viðkomandi. Fjármálaeftirlitið hefði því svigrúm um það hve langt væri gengið við slíka upplýsingaöflun og hversu víðtæk slík athugun þyrfti að vera, en hún yrði að fara að grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Fjármálaeftirlitinu bæri því að gæta hófs í upplýsingasöfnun sinni, afla ekki ónauðsynlegra upplýsinga og aðeins þeirra sem gætu haft áhrif á niðurstöðu mats á fjárhagslegu sjálfstæði. Þá skyldi gæta sjónarmiða um sanngirni og vandaða vinnsluhætti en til þess þarf m.a. að tryggja gagnsæi svo menn viti fyrirfram áður en þeir taki við starfi hvaða upplýsingum Fjármálaeftirlitið muni kalla eftir.
Niðurstaða Persónuverndar var sú að til þess að vinnsla upplýsinga í tengslum við mat á fjárhagslegu sjálfstæði samrýmdist þessum grunnreglum 1. mgr. 7. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þyrfti Fjármálaeftirlitið að afmarka með mun skýrari hætti en nú er gert hvaða persónuupplýsingar væru nauðsynlegar vegna mats á fjárhagslegu sjálfstæði framkvæmdastjóra og stjórnarmanna fjármálafyrirtækja. Þá kemur fram í úrskurðinum að reglur nr. 627/2011 séu mjög almennar og til að tryggja að þær samrýmist grunnkröfum 7. gr. laga nr. 77/2010 sé nauðsynlegt að setja skýr efnisákvæði og viðmið um hvaða upplýsingar séu nauðsynlegar og verði lagðar til grundvallar mati Fjármálaeftirlitsins á fjárhagslegu sjálfstæði framkvæmdastjóra og stjórnarmanna. Leggur Persónuvernd til að reglur Fjármálaeftirlitsins verði endurskoðaðar með hliðsjón af framangreindu. Þessi endurskoðun er nú hafin eins og frá er greint hér að framan.