Fréttir


FME: Eftirlitsferlar styrktir í nýjum alþjóðlegum reglum

15.12.2006

Í ársbyrjun 2007 taka nýjar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja gildi. Reglurnar byggja á staðli frá Baselnefndinni um bankaeftirlit, svonefndum Basel II staðli. Þessar reglur byggja á þremur stoðum. Markmið með annarri stoðinni (Pillar II) er að styrkja tengslin milli mats fjármálafyrirtækisins á áhættum tengdum starfsemi þess, áhættustjórnunar og þeirra kerfa sem notuð eru til að draga úr áhættu og eiginfjárgrunns. Það er hlutverk eftirlitsaðila að kanna og meta innra matsferli fjármálafyrirtækisins fyrir eiginfjárþörf (ICAAP – Internal Capital Adequacy Assessment Process) og traustleika innri stjórnunarferla þar sem ICAAP er notað. Það er hins vegar á ábyrgð fjármálafyrirtækjanna að koma á fót þessu matsferli. Í því skyni má taka tillit til stærðar, mikilvægis og margbreytileika fjármálafyrirtækisins.
 

Eftirlitsferlar tryggi að fjármálafyrirtækin hafi nægilegt eigið fé

Markmiðið með eftirlitsferlunum (SRP - Supervisory Review Process) er að tryggja að fjármálafyrirtæki hafi nægilegt eigið fé til að styðja við og mæta öllum mikilvægum áhættum sem felast í starfseminni. Fjórar grundvallarreglur styðja við þetta mat:
 
1) Það eiga að vera til staðar kerfi innan fjármálafyrirtækjanna til að meta heildar eiginfjárþörf í samræmi við áhættumat og stefna til að tryggja lágmarks eigið fé.

2) Eftirlitsaðilar eiga að kanna og meta innra mat fjármálafyrirtækisins á eiginfjárþörf auk innri ferla og hæfni þeirra til að fylgja eftir eigin kröfum um eiginfjárþörf. Eftirlitsaðilum ber að grípa til aðgerða ef þeir eru ekki sáttir við niðurstöðurnar.
 
3) Eftirlitsaðilar geta vænst þess að eigið fé fjármálafyrirtækis sé umfram lágmark og geta krafist þess að eigið fé fjármálafyrirtækis sé umfram lágmarkskröfu.

4) Eftirlitsaðilar eiga að grípa tímanlega til aðgerða til að koma í veg fyrir að eigið fé fari niður fyrir lágmarkskröfur.

 

Stjórnir fjármálafyrirtækja ábyrgar

Stjórn fjármálafyrirtækis ber frumábyrgð á að ferlar og nægilegt eigið fé sé til staðar. Stjórnin setur viðskiptamarkmið, áhættuviðmið, ákveður skipulag, dreifir ábyrgð og heimildum, ákveður boðleiðir og hvaða upplýsingum ber að safna og dreifa auk þess að skipuleggja innra eftirlit.
 
Viðmiðunarreglur Samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á lánamarkaði (Committee of European Banking Supervisors (CEBS)) vegna eftirlitsferla eru m.a. settar vegna aukinnar þarfar fyrir samstarf í eftirliti milli landa. Í þessu sambandi hefur Fjármálaeftirlitið sent íslenskum fjármálafyrirtækjum til umsagnar drög að leiðbeinandi tilmælum um viðmiðunarreglur til að efla samræmi í eftirlitsaðgerðum. Umsagnarfrestur er til 20. desember, 2006.
 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica