Umræðuskjal: Viðmiðunarreglur til að efla samræmi í eftirlitsaðgerðum
Fjármálaeftirlitið birtir til umsagnar Umræðuskjal nr. 5/2006. Umræðuskjalið hefur að geyma drög að leiðbeinandi tilmælum um viðmiðunarreglur til að efla samræmi í eftirlitsaðferðum. Nýjar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja ganga í gildi í ársbyrjun 2007. Reglurnar eru byggðar á staðli frá Baselnefndinni um bankaeftirlit, svonefndum Basel II staðli. Þessar reglur eru í þremur hlutum, svonefndum stoðum eftir enskum heitum þeirra, Pillar I, II og III. Markmið með annarri stoðinni (Pillar II) er að styrkja tengslin milli mats fjármálafyrirtækisins á áhættum tengdum starfsemi þess, áhættustjórnunar og þeirra kerfa sem notuð eru til að draga úr áhættu og eiginfjárgrunns.
Viðmiðunarreglur Samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á lánamarkaði (Committee of European Banking Supervisors (CEBS)) vegna eftirlitsferla (Supervisory Review Process) eru m.a. settar vegna aukinnar þarfar fyrir samstarf í eftirliti milli landa. Skjalið verður sent til fjármálafyrirtækja til umsagnar, og einnig er það birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins undir umræðuskjölum lánamarkaðar. Umsagnarfrestur er til 20. desember 2006.