Rafræn skýrsluskil til Fjármálaeftirlitsins
Frá og með ársbyrjun 2007 hyggst Fjármálaeftirlitið breyta fyrirkomulagi reglubundinna skýrsluskila. Frá þeim tíma verður farið fram á að öllum slíkum skýrslum verði skilað á rafrænu formi inn á sérstakan vef eftirlitsins. Þessu nýja fyrirkomulagi er ætlað að tryggja öruggari flutning gagna yfir netið og um leið aðgengilegri og auðveldari skýrsluskil. Yfirsýn einstakra eftirlitsskyldra aðila og Fjármálaeftirlitsins hvað varðar skýrsluskil viðkomandi mun einnig verða mun gleggri. Þegar er fengin góð reynsla af þessu fyrirkomulagi með rafrænum skilum á innherjalistum skráðra félaga til Fjármálaeftirlitsins.
Útfærsla og endurbætur á rafrænum skýrsluskilum til Fjármálaeftirlitsins hefur verið til athugunar um hríð hjá eftirlitinu. Hugmyndir þessa efnis voru fyrr á árinu kynntar fyrir fulltrúum nokkurra eftirlitsskyldra aðila. Sett verður upp sérstakt veffang hjá Fjármálaeftirlitinu í ársbyrjun 2007 fyrir skýrsluskilin. Þangað verða eftirlitsskyldir aðilar að sækja þau skýrsluform sem við eiga við hver skýrsluskil. Með þessu nýja kerfi verður einnig hægt að senda skýrslur á PDF formi sem ekki er skilyrt að senda á sérstöku skýrsluformi Fjármálaeftirlitsins, s.s. skýrslu endurskoðanda um endurskoðun ársreiknings.
,,Við hjá FME erum að hrinda í framkvæmd metnaðarfullri upplýsingatæknistefnu og þetta nýja fyrirkomulag er einn liður í því”, segir Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME.