Fjármálaeftirlitið gefur út umræðuskjal vegna reglna um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum
Fjármálaeftirlitið setur samkvæmt lögum reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum. Á árinu hefur Fjármálaeftirlitið unnið að endurskoðun núgildandi reglna um stórar áhættuskuldbindingar með hliðsjón af þeim breytingum sem innleiðing tilskipunar 2009/111/EB hefur á efni reglnanna.
Drög að endurskoðuðum reglum eru nú tilbúin og hafa verið gefin út í umræðuskjali nr. 13/2012 sem sjá má hér. Við gerð draganna var, auk tilskipunar 2009/111/EB, höfð hliðsjón af sambærilegum reglum í Noregi og Danmörku.
Í kjölfar útgáfu reglnanna er áætlað að leiðbeinandi tilmæli um einstök ákvæði reglnanna verði sett á næsta ári. Tilmælin munu að hluta til fela í sér efni sem kom fram í drögum að leiðbeinandi tilmælum um mat á tengslum aðila í skilningi reglna um stórar áhættuskuldbindingar, nr. 7/2011, en efni umræddra draga verður endurskoðað að hluta. Ennfremur er fyrirhugað að endurskoða skýrsluformið sem notast er við vegna stórra áhættuskuldbindinga, svo það taki mið af endurskoðuðum reglum um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.
Fjármálaeftirlitið hefur óskað eftir því að athugasemdir umsagnaraðila við umræðuskjalið berist eftirlitinu eigi síðar en 11. janúar 2013. Umsagnir skulu ritaðar á þar til gert umsagnareyðublað eins og nánar er lýst á forsíðu umræðuskjalsins.