Árétting vegna athugasemda í kjölfar athugunar Fjármálaeftirlitsins
Vegna athugasemda Stafa lífeyrissjóðs og fjölmiðlaumfjöllunar undanfarið um athugun Fjármálaeftirlitsins á tilteknum þáttum í starfsemi lífeyrissjóðsins, vill Fjármálaeftirlitið leiðrétta rangfærslur og misskilning samanber eftirfarandi:
- Skýrsla Fjármálaeftirlitsins vegna málsins er á sjöunda tug blaðsíðna. Gagnsæistilkynning Fjármálaeftirlitsins sem birtist á vef stofnunarinnar sýnir samandregnar niðurstöður.
- Staða Stafa í óskráðum bréfum var bæði tilkomin vegna verðbréfa sem breyttust úr skráðum í óskráð og vegna óskráðra verðbréfa sem sjóðurinn fjárfesti í á árinu 2011. Saman ýtti leiðrétting verðbréfanna og fjárfestingin sjóðnum endanlega út fyrir lagaheimildir.
- Þegar tekið er mið af heildareignum sjóðsins á þessum tíma samsvara 0,7% tæpum milljarði króna. Fjármálaeftirlitið telur ekki vafa á að svo stór fjárfesting í einu lagi sé mikilsháttar fjárfestingarákvörðun og hefði betur verið tekin af fleiri en einum aðila.
- Athugasemdir Fjármálaeftirlitsins við lánveitingar Stafa lífeyrissjóðs voru m.a. vegna eftirfarandi atriða:
- Lánveiting var ekki í samræmi við lánareglur sjóðsins.
- Látið var viðgangast að veðskuldabréf til staðfestingar á eign sjóðsins var óundirritað.
- Lánveiting til framkvæmdastjóra vegna kaupa á bifreið, sem hann hafði til umráða í starfi sínu, var ekki í samræmi við lánareglur og hliðstæð lán stóðu ekki hinum almenna sjóðfélaga til boða.
- Fjármálaeftirlitið telur óvarlegt að fullyrða að engir fjármunir hafi tapast hjá sjóðnum í tengslum við þau atriði sem gerðar hafa verið athugasemdir við.