Reglur um framkvæmd hæfismats hjá lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði
Fjármálaeftirlitið hefur sett tvennar nýjar reglur um framkvæmd hæfismats. Annars vegar er um að ræða reglur nr. 180/2013 um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða og hins vegar reglur nr. 181/2013 um framkvæmd hæfismats forstjóra og stjórnarmanna Íbúðalánasjóðs.
Reglur nr. 180/2013 um hæfismat hjá lífeyrissjóðum voru fyrst sendar í umsagnarferli þann 27. apríl 2012 en útgáfa þeirra tafðist vegna endurskoðunar ákvæða um fjárhagslegt sjálfstæði í sambærilegum reglum fyrir fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög. Að lokinni endurskoðun voru ný regludrög send í umsagnarferli þann 12. nóvember sl. og stóð það til 26. nóvember s.á.
Reglur nr. 181/2013 um hæfismat hjá Íbúðalánasjóði voru sendar í umsagnarferli þann 30. nóvember sl. og stóð það í rúmar þrjár vikur eða til 17. desember sl.
Báðar reglurnar voru samþykktar af stjórn FME þann 6. febrúar sl. og birtar í Stjórnartíðindum miðvikudaginn 27. febrúar sl.