EIOPA birtir drög að tilmælum um undirbúning vegna Solvency II
Evrópska eftirlitsstofnunin á vátrygginga- og lífeyrismarkaði (EIOPA), hefur sent til umsagnar drög að leiðbeinandi tilmælum um undirbúning vegna tilskipunar 2009/138/EB (Solvency II tilskipunin) um stofnun og starfrækslu vátryggingafélaga.Í ljósi þess að Framkvæmdastjórn ESB, Evrópuþingið og Ráðherraráðið hafa ekki náð samkomulagi um fyrirhugaðar breytingar á Solvency II tilskipuninni og meðfylgjandi óvissu um hvenær reglurnar taka gildi, taldi EIOPA mikilvægt að þeim undirbúningi sem hefur staðið yfir hjá vátryggingafélögum og eftirlitsstjórnvöldum yrði haldið áfram.
Markmið tilmælanna er undirbúningur vátryggingafélaga og eftirlitsstjórnvalda á þeim þáttum í Solvency II er varða stjórnarhætti, eigið mat vátryggingafélaga á áhættuþáttum, skil á upplýsingum og forumsóknir vegna eigin líkana.
Tilmælin munu taka gildi 1. janúar 2014 en fyrstu skil á upplýsingum munu miðast við árslok 2014. Gert er ráð fyrir að meðalhóf verði haft að leiðarljósi við beitingu tilmælanna, þannig að ekki verði gerðar of íþyngjandi kröfur til smærri og meðalstórra vátryggingafélaga.
Hagsmunaaðilar geta sent athugasemdir til EIOPA til 19. júní næstkomandi. Gert er ráð fyrir að tilmælin verði gefin út næsta haust sem gefur eftirlitsstjórnvöldum tilskilinn tíma til undirbúnings.
Fjármálaeftirlitið hefur þegar hafið undirbúning að innleiðingu tilmælanna og mun kynna þau nánar fyrir vátryggingafélögum á næstunni.